Drykkjuskólar íþróttafélaganna Stefán Pálsson skrifar 18. desember 2016 11:00 Frá sjötta desember 1950 til sjöunda janúar 1951 hélt Knattspyrnufélagið Fram níu dansleiki með vínveitingum í hinum og þessum öldurhúsum Reykjavíkur. Mynd/Spegillinn/timarit.is Frá sjötta desember 1950 til sjöunda janúar 1951 hélt Knattspyrnufélagið Fram níu dansleiki með vínveitingum í hinum og þessum öldurhúsum Reykjavíkur. Skemmtanagleðin var ekki bundin við þá bláklæddu. Í skýrslu Áfengisvarnarnefndar bæjarins kom fram að á tímabilinu ágúst til desember 1950 héldu íþróttafélög höfuðstaðarins tugi skemmtana með leyfum til áfengissölu. Frjálsíþróttadeild KR var einna iðnust við kolann með tuttugu dansleiki. Ármenningar, ÍR-ingar og Framarar voru á svipuðu róli og svo virtist sem Skíðadeild Æskulýðsfylkingar Sósíalistaflokksins hugsaði meira um skemmtanahald en að renna sér á skíðum eða vinna að framgangi öreigabyltingarinnar. Ekki var þó allt sem sýndist. Dansleikjafarganið hafði í raun minnst með íþróttastarf að gera, heldur var það birtingarmynd stefnu hins opinbera í áfengismálum. Árið 1935 var afnumið á Íslandi áfengisbann sem verið hafði í gildi í um tvo áratugi. Áfengisverslun ríkisins tók til starfa og hóf þegar framleiðslu á brennivíni, sem ætlað var að leysa af hólmi stórfellda landaframleiðslu um allar sveitir. Rúmum áratug áður höfðu landsmenn þó fengið að gæða sér á nokkrum tegundum suður-evrópskra vína að kröfu spænskra stjórnvalda sem hótuðu að öðrum kosti að setja innflutningsbann á íslenskan saltfisk. Við afnám bannlaganna varð Hótel Borg eini veitingastaður landsins með fast áfengisleyfi. Borgin naut sérstakrar velvildar í stjórnkerfinu, enda veitingamaðurinn Jóhannes Jósefsson ágætlega tengdur bæði ungmennafélagshreyfingunni og Framsóknarflokknum. Raunar hafði Jóhannes reist hótelið að áeggjan ríkisvaldsins og notið til þess ríkisábyrgðar. Það gerðist í aðdraganda Alþingishátíðarinnar 1930, þar sem von var á fjölda erlendra gesta og því talið brýnt að koma upp hóteli sem stæðist alþjóðlegan samanburð. Til að styrkja rekstrargrundvöll hins nýja hótels enn frekar fékk það eitt að selja Spánarvínin eftirsóttu, en öðrum gistiheimilum bæjarins var synjað um vínsöluleyfi.Undanþágur fyrir félög Sem vænta mátti kunnu eigendur annarra samkomustaða þessari mismunun illa og til að bæta úr því var heimilað að gefa út áfengisleyfi til eins kvölds í einu fyrir samkomur hvers kyns félagasamtaka. Fyrir vikið varð talsverður hvati fyrir veitingamenn að leita samstarfs við átthagafélög, stjórnmálasamtök eða aðra hópa varðandi dansleikjahald og varð það til að efla félagsstarfsemi af ýmsum toga. Fyrstu árin virðast raunverulegar skemmtanir á vegum félaga og hópa hafa staðið á bak við flest eða öll áfengisleyfin, en með tímanum fór að slakna á því. Skemmtanalífið í Reykjavík tók talsverðum breytingum á heimsstyrjaldarárunum og næstu misserin þar á eftir. Landsmenn höfðu meira á milli handanna og sífellt fleiri vildu lyfta sér upp á dansleikjum og þá helst með Bakkus í för. Árið 1946 voru gefin út um 400 sérstök vínveitingaleyfi í Reykjavík, en fjórum árum síðar voru þau nálega þrefalt fleiri. Sú fjölgun sagði minnst um grósku í félagsstarfi, því í langflestum tilvikum var um að ræða að félög gerðust, gegn lítilsháttar þóknun, leppar fyrir dansleiki sem tengdust þeim að öðru leyti ekkert. Þau félög sem létu freistast til að lána veitingamönnum nafn sitt voru af ýmsu tagi, en fyrir bindindisforkólfa lágu íþróttafélögin eðlilega best við höggi. Yfirlýst markmið þeirra var að stuðla að líkamlegu heilbrigði félagsmanna sinna og því hlálegt að sjá þau tengjast alræmdum sukksamkomum með þessum hætti. Gerðu templarar sér að leik að tala um áfengisböllin í Reykjavík sem „drykkjuskóla íþróttafélaganna“. Í kynningu á fyrrnefndri skýrslu í febrúar 1951 skutu fulltrúar Áfengisvarnarnefndar föstum skotum á forystu íþróttahreyfingarinnar. Einkum var Gísli Sigurbjörnsson, einn nefndarmanna, harðorður. Sagðist hann vonast til að félögin létu af þessu háttalagi með góðu, en að öðrum kosti yrði að grípa til róttækari aðgerða. Óeðlilegt væri að hið opinbera veitti styrki þeim íþróttafélögum sem ekki höfnuðu algjörlega hvers kyns vínveitingum. Sjálfur sagðist Gísli hafa ákveðið að segja sig úr sínu íþróttafélagi, Víkingi, ef hann frétti oftar af slíkum veigum á samkomum þess. Athugasemdir nefndarinnar og Gísla sérstaklega, ollu miklum taugatitringi innan íþróttahreyfingarinnar. Þar innandyra voru margir á sama máli og samþykkti Íþróttasamband Íslands strangar reglur þar sem aðildarfélögum var bannað að bjóða upp á áfengi á skemmtunum sínum að viðlögðum refsingum á borð við keppnisbann. Íþróttabandalag Reykjavíkur taldi hins vegar óframkvæmanlegt að skikka einstök aðildarfélög til að taka upp algjört bindindi og raunar utan verksviðs íþróttahreyfingarinnar.Leitað nýrra leiða Nokkuð dró úr áfengisdansleikjum íþróttafélaganna fyrst í stað, en fljótlega fór allt í sama farið. Þessi matarhola Reykjavíkurliðanna lokaðist hins vegar af sjálfu sér á árinu 1952 þegar dómsmálaráðuneytið tók sjálft yfir alla veitingu skammtímaleyfa. Í kjölfarið endurskoðaði Alþingi áfengislöggjöfina og þurftu veitingastaðaeigendur eftir það ekki að leita á náðir frjálsra félagasamtaka til að leppa vínsöluleyfi sín. Almennt þótti íþróttafrömuðum áfengisumræðan óþægileg, en þeir voru þó til sem sáu enga ástæðu til að skammast sín heldur svöruðu fullum hálsi. Reiður bréfritari í Morgunblaðinu sem kallaði sig „Íþróttamann“ sakaði Gísla um að hafa sjálfur veitt áfengi á samkomum í tengslum við komu þýskra knattspyrnumanna til Íslands, en Gísli (sem einatt var kenndur við elliheimilið Grund) var kunnur áhugamaður um íslensk/þýsk menningarsamskipti. Sportblaðið, sem var skammlíft tímarit um íþróttamál, gekk skrefinu lengra. Það mótmælti í tvígang þeirri ósvinnu að Gísli Sigurbjörnsson væri fenginn til að vera fararstjóri í ferð Framara og Víkinga til Vestur-Þýskalands þetta sama sumar í ljósi lúalegra skrifa hans um íþróttahreyfinguna sama ár. Þeir sem reiddust skrifum Gísla og félaga töldu gagnrýnina ósanngjarna þar sem látið væri að því liggja að íþróttamenn væru öðrum drykkfelldari. Hér væri hins vegar aðeins um skiljanlega sjálfsbjargarviðleitni Reykjavíkurfélaganna að ræða. Starfsemi þeirra væri mikilvæg en kostnaðarsöm, einkum þar sem flest félögin ynnu að því að koma sér upp félagssvæðum og -heimilum, en nytu til þess mjög takmarkaðra styrkja. Í stað þess að hnýta í íþróttamenn fyrir að reyna að bjarga sér, ættu templarar að leggja til aðrar og betri fjáröflunarleiðir fyrir blönk íþróttafélögin. Raunar urðu deilurnar um vínveitingaleyfi íþróttafélaganna til þess að ýta við slíkum umræðum. Íþróttabandalag Reykjavíkur samþykkti á ársþingi sínu árið 1951 að reyna að stofnsetja svokallað bingó-happdrætti sem sagt var að bandarískri fyrirmynd. Í raun var um hefðbundið bingó að ræða, en hugmynd íþróttamannanna var sú að fá að selja spjöldin og draga út tölur á öllum opinberum skemmtunum. Einkum höfðu menn kvikmyndahúsin í huga þar sem draga mætti í hléi eða á undan sýningum, þar sem saman væru komnir stórir hópar fólks í öðrum erindagjörðum. Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra, sem hafði mikið látið sig varða málefni íþróttafélaganna í borgarstjóratíð sinni, féllst á að flytja lagafrumvarp þessa efnis. Þingmenn voru hins vegar varfærnari og gerðu þá veigamiklu breytingu á frumvarpinu að leyfið einskorðaðist við auglýstar samkomur íþróttafélaganna sjálfra. Draumurinn um að bingóspjald til styrktar íþróttamálum yrði jafnsjálfsagður hlutur af bíóferðinni og popp og kók fór því fyrir lítið og bingó-happdrættið varð ekki veigamikil fjáröflunarleið. Sama ár og bingó-tilraunin hófst og fór út um þúfur, ýttu íþróttamenn öðru fyrirtæki úr vör sem virtist lífvænlegra. Í aprílmánuði 1952 gátu Íslendingar í fyrsta skipti veðjað á tólf leiki á getraunaseðlum Íslenskra getrauna. Varð Ísland þar með eitt síðasta landið í Vestur-Evrópu til að hefja rekstur íþróttagetrauna, en slík heimild hafði raunar verið bundin í lög þegar í tengslum við setningu íþróttalaganna árið 1940. Knattspyrnuleikir voru fyrirferðarmestir á getraunaseðlinum. Stundum var boðið upp á íslenska leiki eða skandinavíska, en enski boltinn var þó í aðalhlutverki frá byrjun. Hinn nýi leikur fór vel af stað fyrstu vikurnar, en salan féll um sumarið og náði sér í raun aldrei aftur á flug. Sölukerfið var veikburða og byggðist mjög á dugnaði einstakra íþróttafélaga. Þá þótti mörgum leikurinn strembinn – enda gerðist það aðeins einu sinni á árinu 1952, í 28 leikvikum, að 12 réttir næðust. Getraunarekstur sjötta áratugarins var fjarri því að skila þeim tekjum sem vonir höfðu staðið til, en íþróttamenn reyndu þó að halda skútunni á floti enda getraunir taldar gullnáma í flestum nágrannalöndunum. Árið 1956 lognaðist tilraunin þó endanlega út af . Þrettán ár áttu eftir að líða uns fótboltagetraunir voru endurvaktar hér á landi. Í það skiptið gekk dæmið öllu betur upp, enda sjónvarpið komið til sögunnar með geysivinsælum þáttum um ensku knattspyrnuna. Alþingi Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Ógleymanlegt að vinna fyrir Rihönnu Tíska og hönnun Dularfull tíst Dylans vekja furðu Lífið Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Davíð Lúther og Linda selja sælureitinn með gullfiskum Lífið Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Tónlist Átta ár án áfengis og fíkniefna Lífið Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Svava Rós og Hinrik eiga von á dreng Lífið „Laugarnesið hafði mjög mikil áhrif á mig í uppvexti“ Lífið Fer að sofa klukkan fjögur og getur sveiflast um þrjátíu kíló Lífið Fleiri fréttir Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Sjá meira
Frá sjötta desember 1950 til sjöunda janúar 1951 hélt Knattspyrnufélagið Fram níu dansleiki með vínveitingum í hinum og þessum öldurhúsum Reykjavíkur. Skemmtanagleðin var ekki bundin við þá bláklæddu. Í skýrslu Áfengisvarnarnefndar bæjarins kom fram að á tímabilinu ágúst til desember 1950 héldu íþróttafélög höfuðstaðarins tugi skemmtana með leyfum til áfengissölu. Frjálsíþróttadeild KR var einna iðnust við kolann með tuttugu dansleiki. Ármenningar, ÍR-ingar og Framarar voru á svipuðu róli og svo virtist sem Skíðadeild Æskulýðsfylkingar Sósíalistaflokksins hugsaði meira um skemmtanahald en að renna sér á skíðum eða vinna að framgangi öreigabyltingarinnar. Ekki var þó allt sem sýndist. Dansleikjafarganið hafði í raun minnst með íþróttastarf að gera, heldur var það birtingarmynd stefnu hins opinbera í áfengismálum. Árið 1935 var afnumið á Íslandi áfengisbann sem verið hafði í gildi í um tvo áratugi. Áfengisverslun ríkisins tók til starfa og hóf þegar framleiðslu á brennivíni, sem ætlað var að leysa af hólmi stórfellda landaframleiðslu um allar sveitir. Rúmum áratug áður höfðu landsmenn þó fengið að gæða sér á nokkrum tegundum suður-evrópskra vína að kröfu spænskra stjórnvalda sem hótuðu að öðrum kosti að setja innflutningsbann á íslenskan saltfisk. Við afnám bannlaganna varð Hótel Borg eini veitingastaður landsins með fast áfengisleyfi. Borgin naut sérstakrar velvildar í stjórnkerfinu, enda veitingamaðurinn Jóhannes Jósefsson ágætlega tengdur bæði ungmennafélagshreyfingunni og Framsóknarflokknum. Raunar hafði Jóhannes reist hótelið að áeggjan ríkisvaldsins og notið til þess ríkisábyrgðar. Það gerðist í aðdraganda Alþingishátíðarinnar 1930, þar sem von var á fjölda erlendra gesta og því talið brýnt að koma upp hóteli sem stæðist alþjóðlegan samanburð. Til að styrkja rekstrargrundvöll hins nýja hótels enn frekar fékk það eitt að selja Spánarvínin eftirsóttu, en öðrum gistiheimilum bæjarins var synjað um vínsöluleyfi.Undanþágur fyrir félög Sem vænta mátti kunnu eigendur annarra samkomustaða þessari mismunun illa og til að bæta úr því var heimilað að gefa út áfengisleyfi til eins kvölds í einu fyrir samkomur hvers kyns félagasamtaka. Fyrir vikið varð talsverður hvati fyrir veitingamenn að leita samstarfs við átthagafélög, stjórnmálasamtök eða aðra hópa varðandi dansleikjahald og varð það til að efla félagsstarfsemi af ýmsum toga. Fyrstu árin virðast raunverulegar skemmtanir á vegum félaga og hópa hafa staðið á bak við flest eða öll áfengisleyfin, en með tímanum fór að slakna á því. Skemmtanalífið í Reykjavík tók talsverðum breytingum á heimsstyrjaldarárunum og næstu misserin þar á eftir. Landsmenn höfðu meira á milli handanna og sífellt fleiri vildu lyfta sér upp á dansleikjum og þá helst með Bakkus í för. Árið 1946 voru gefin út um 400 sérstök vínveitingaleyfi í Reykjavík, en fjórum árum síðar voru þau nálega þrefalt fleiri. Sú fjölgun sagði minnst um grósku í félagsstarfi, því í langflestum tilvikum var um að ræða að félög gerðust, gegn lítilsháttar þóknun, leppar fyrir dansleiki sem tengdust þeim að öðru leyti ekkert. Þau félög sem létu freistast til að lána veitingamönnum nafn sitt voru af ýmsu tagi, en fyrir bindindisforkólfa lágu íþróttafélögin eðlilega best við höggi. Yfirlýst markmið þeirra var að stuðla að líkamlegu heilbrigði félagsmanna sinna og því hlálegt að sjá þau tengjast alræmdum sukksamkomum með þessum hætti. Gerðu templarar sér að leik að tala um áfengisböllin í Reykjavík sem „drykkjuskóla íþróttafélaganna“. Í kynningu á fyrrnefndri skýrslu í febrúar 1951 skutu fulltrúar Áfengisvarnarnefndar föstum skotum á forystu íþróttahreyfingarinnar. Einkum var Gísli Sigurbjörnsson, einn nefndarmanna, harðorður. Sagðist hann vonast til að félögin létu af þessu háttalagi með góðu, en að öðrum kosti yrði að grípa til róttækari aðgerða. Óeðlilegt væri að hið opinbera veitti styrki þeim íþróttafélögum sem ekki höfnuðu algjörlega hvers kyns vínveitingum. Sjálfur sagðist Gísli hafa ákveðið að segja sig úr sínu íþróttafélagi, Víkingi, ef hann frétti oftar af slíkum veigum á samkomum þess. Athugasemdir nefndarinnar og Gísla sérstaklega, ollu miklum taugatitringi innan íþróttahreyfingarinnar. Þar innandyra voru margir á sama máli og samþykkti Íþróttasamband Íslands strangar reglur þar sem aðildarfélögum var bannað að bjóða upp á áfengi á skemmtunum sínum að viðlögðum refsingum á borð við keppnisbann. Íþróttabandalag Reykjavíkur taldi hins vegar óframkvæmanlegt að skikka einstök aðildarfélög til að taka upp algjört bindindi og raunar utan verksviðs íþróttahreyfingarinnar.Leitað nýrra leiða Nokkuð dró úr áfengisdansleikjum íþróttafélaganna fyrst í stað, en fljótlega fór allt í sama farið. Þessi matarhola Reykjavíkurliðanna lokaðist hins vegar af sjálfu sér á árinu 1952 þegar dómsmálaráðuneytið tók sjálft yfir alla veitingu skammtímaleyfa. Í kjölfarið endurskoðaði Alþingi áfengislöggjöfina og þurftu veitingastaðaeigendur eftir það ekki að leita á náðir frjálsra félagasamtaka til að leppa vínsöluleyfi sín. Almennt þótti íþróttafrömuðum áfengisumræðan óþægileg, en þeir voru þó til sem sáu enga ástæðu til að skammast sín heldur svöruðu fullum hálsi. Reiður bréfritari í Morgunblaðinu sem kallaði sig „Íþróttamann“ sakaði Gísla um að hafa sjálfur veitt áfengi á samkomum í tengslum við komu þýskra knattspyrnumanna til Íslands, en Gísli (sem einatt var kenndur við elliheimilið Grund) var kunnur áhugamaður um íslensk/þýsk menningarsamskipti. Sportblaðið, sem var skammlíft tímarit um íþróttamál, gekk skrefinu lengra. Það mótmælti í tvígang þeirri ósvinnu að Gísli Sigurbjörnsson væri fenginn til að vera fararstjóri í ferð Framara og Víkinga til Vestur-Þýskalands þetta sama sumar í ljósi lúalegra skrifa hans um íþróttahreyfinguna sama ár. Þeir sem reiddust skrifum Gísla og félaga töldu gagnrýnina ósanngjarna þar sem látið væri að því liggja að íþróttamenn væru öðrum drykkfelldari. Hér væri hins vegar aðeins um skiljanlega sjálfsbjargarviðleitni Reykjavíkurfélaganna að ræða. Starfsemi þeirra væri mikilvæg en kostnaðarsöm, einkum þar sem flest félögin ynnu að því að koma sér upp félagssvæðum og -heimilum, en nytu til þess mjög takmarkaðra styrkja. Í stað þess að hnýta í íþróttamenn fyrir að reyna að bjarga sér, ættu templarar að leggja til aðrar og betri fjáröflunarleiðir fyrir blönk íþróttafélögin. Raunar urðu deilurnar um vínveitingaleyfi íþróttafélaganna til þess að ýta við slíkum umræðum. Íþróttabandalag Reykjavíkur samþykkti á ársþingi sínu árið 1951 að reyna að stofnsetja svokallað bingó-happdrætti sem sagt var að bandarískri fyrirmynd. Í raun var um hefðbundið bingó að ræða, en hugmynd íþróttamannanna var sú að fá að selja spjöldin og draga út tölur á öllum opinberum skemmtunum. Einkum höfðu menn kvikmyndahúsin í huga þar sem draga mætti í hléi eða á undan sýningum, þar sem saman væru komnir stórir hópar fólks í öðrum erindagjörðum. Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra, sem hafði mikið látið sig varða málefni íþróttafélaganna í borgarstjóratíð sinni, féllst á að flytja lagafrumvarp þessa efnis. Þingmenn voru hins vegar varfærnari og gerðu þá veigamiklu breytingu á frumvarpinu að leyfið einskorðaðist við auglýstar samkomur íþróttafélaganna sjálfra. Draumurinn um að bingóspjald til styrktar íþróttamálum yrði jafnsjálfsagður hlutur af bíóferðinni og popp og kók fór því fyrir lítið og bingó-happdrættið varð ekki veigamikil fjáröflunarleið. Sama ár og bingó-tilraunin hófst og fór út um þúfur, ýttu íþróttamenn öðru fyrirtæki úr vör sem virtist lífvænlegra. Í aprílmánuði 1952 gátu Íslendingar í fyrsta skipti veðjað á tólf leiki á getraunaseðlum Íslenskra getrauna. Varð Ísland þar með eitt síðasta landið í Vestur-Evrópu til að hefja rekstur íþróttagetrauna, en slík heimild hafði raunar verið bundin í lög þegar í tengslum við setningu íþróttalaganna árið 1940. Knattspyrnuleikir voru fyrirferðarmestir á getraunaseðlinum. Stundum var boðið upp á íslenska leiki eða skandinavíska, en enski boltinn var þó í aðalhlutverki frá byrjun. Hinn nýi leikur fór vel af stað fyrstu vikurnar, en salan féll um sumarið og náði sér í raun aldrei aftur á flug. Sölukerfið var veikburða og byggðist mjög á dugnaði einstakra íþróttafélaga. Þá þótti mörgum leikurinn strembinn – enda gerðist það aðeins einu sinni á árinu 1952, í 28 leikvikum, að 12 réttir næðust. Getraunarekstur sjötta áratugarins var fjarri því að skila þeim tekjum sem vonir höfðu staðið til, en íþróttamenn reyndu þó að halda skútunni á floti enda getraunir taldar gullnáma í flestum nágrannalöndunum. Árið 1956 lognaðist tilraunin þó endanlega út af . Þrettán ár áttu eftir að líða uns fótboltagetraunir voru endurvaktar hér á landi. Í það skiptið gekk dæmið öllu betur upp, enda sjónvarpið komið til sögunnar með geysivinsælum þáttum um ensku knattspyrnuna.
Alþingi Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Ógleymanlegt að vinna fyrir Rihönnu Tíska og hönnun Dularfull tíst Dylans vekja furðu Lífið Flytja frá Bandaríkjunum eftir sigur Trump Lífið Davíð Lúther og Linda selja sælureitinn með gullfiskum Lífið Biggi Maus tók einn þekktasta slagara Arons Can í fiskabúrinu Tónlist Átta ár án áfengis og fíkniefna Lífið Eitt fallegasta hús landsins tilbúið Lífið Svava Rós og Hinrik eiga von á dreng Lífið „Laugarnesið hafði mjög mikil áhrif á mig í uppvexti“ Lífið Fer að sofa klukkan fjögur og getur sveiflast um þrjátíu kíló Lífið Fleiri fréttir Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Sjá meira