Innlent

Sölvi sár vegna niðurhals: Vonandi áttar fólk sig á því að þetta er ekkert frábrugðið öðrum þjófnaði

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sölvi Tryggvason.
Sölvi Tryggvason. vísir/valli
Nærri tvö þúsund manns eru búnir að niðurhala kvikmynd Sölva Tryggvasonar- Jökullinn logar ásamt öllu aukaefni með ólöglegum hætti. Sölvi bendir sjálfur á þetta í færslu á Facebook síðu sinni nú í kvöld.

Við gerð myndarinnar fékk Sölvi óheftan aðgang að íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og fjallar myndin um vegferð liðsins á EM 2016 auk þess sem nokkrir leikmenn eru í nærmynd.  

Sölvi segir að það sé helvíti hart að geta ekkert gert í málunum. Bendir hann á að hann hafi unnið kauplaust í næstum heilt ár við að búa til kvikmyndina frá grunni en auk þess þurfti hann að standa að fjármögnunarvinnu sjálfur.

Tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma í veg fyrir að íslensku efni sé deilt með ólöglegum hætti á svokölluðum deilisíðum, meðal annars með lögbanni en á sama degi og Héraðsdómur staðfesti slíkt lögbann á skráarskiptasíðuna Deildu í október síðastliðnum náðu 1600 manns sér í fyrsta þáttinn af Borgarstjóranum með ólöglegum hætti. 

Sölvi segist vona að einhvern daginn átti fólk sig á því að slíkt niðurhal sé ekkert frábrugðið öðrum þjófnaði.

Ekki náðist í Sölva við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×