Erlent

Hryllingur á jólamarkaði í Berlín

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. vísir/epa
Minnst níu létust og um fimmtíu særðust þegar flutningabíll ók á hóp fólks á jólamarkaði í Berlín í gærkvöldi. Ökumaðurinn komst undan á hlaupum en var skömmu síðar handtekinn af lögreglu. Ekki er vitað hvort um óhapp var að ræða eða árás.

„Sendiráðið hefur verið í sambandi við lögregluna og við vitum ekki betur en að allir Íslendingar séu hólpnir,“ segir Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Þýskalandi. Sendiherrann ekur þarna fram hjá daglega og hafði verið með fjölskyldu sinni á þessum sama jólamarkaði í fyrradag. „Maður veit ekki hvað maður skal segja á svona stundum. Þetta er ömurlegt illvirki sem hefur í för með sér inngrip í líf svo margra.“

Atvikið átti sér stað á jólamarkaði í Charlottenburg-hverfinu í Berlín sem er í vesturhluta borgarinnar. Gatan er ein vinsælasta og stærsta verslunargata Berlínarborgar. Tveir voru í bílnum og var annar þeirra látinn. Talið er að hann hafi týnt lífi í árekstrinum.

„Það eru bara allir í sjokki. Ég gekk þarna í gegn nokkrum mínútum áður en þetta átti sér stað,“ segir Jón Kári Hilmarsson en hann er staddur í borginni sem stendur. Hann hafi gengið í gegnum markaðinn en ákveðið að halda þaðan sökum hungurs. „Þegar ég kom af veitingastað, sem er þarna í hundrað metra fjarlægð, voru viðbragðsaðilar út um allt.“

Talsverður fjöldi Íslendinga er búsettur í Berlín eða staddur þar. Utanríkisráðuneytið hefur biðlað til fólks að láta aðstandendur vita, hafa samband við ráðuneytið eða sendiráð Íslands í Þýskalandi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×