Skoðun

Samfélagsverkefni Rótarýhreyfingarinnar

Eiríkur K. Þorbjörnsson skrifar
Rótarýklúbbar starfa að ýmsum framfara- og stuðningsmálum í sinni heimabyggð, vinna að verkefnum á landsvísu og taka þátt í fjölbreyttum alþjóðlegum verkefnum. Á innlendum vettvangi kemur Rótarýhreyfingin einnig að margvíslegum samfélagsmálum.

Meginmarkmið Rótarýhreyfingarinnar er að stuðla að friði og bættum skilningi meðal manna, bæði á alþjóðlegum vettvangi og í íslensku samfélagi. Má þar nefna stuðning við aldraða, fatlaða og námsmenn auk umhverfismála í nágrenni við klúbbana. Umhverfismál og landvernd eru og verða ofarlega á dagskrá Rótarýhreyfingarinnar hér á landi.

Önnur megin markmið Rótarý eru að vinna að háleitum siðfræðilegum hugsjónum og stuðla að yfirgripsmiklu framlagi til mannúðar- og menntamála, ekki síst í þróunarlöndunum og taka þátt í alþjóðlegum verkefnum.

Hér er dæmi um verkefni á vegum Rótarý sem falla vel að markmiði hreyfingarinnar:

Góð samskipti eru lykillinn að farsælum frama en ekki er öllum jafn tamt að tjá sig og koma hugmyndum sínum á framfæri á skýran og grípandi hátt. Fyrir atbeina æskulýðsnefndar Rótarýklúbbsins Görðum í Garðabæ hefur valinn hópur rótarýfélaga í allmörg ár staðið fyrir ræðunámskeiði á vormisseri í 9. bekk í grunnskólum Garðabæjar. Kennd eru undirstöðuatriði í framsögu og síðan fá nemendur að spreyta sig á ræðustúf. Frábær samvinna hefur tekist milli RG og skólanna í Garðabæ um þessi námskeið. Kennsluefnið er m.a. byggt á stuðning frá umdæminu á sínum tíma og lögðu margir hönd á plóg, ma. Thomas Möller frá Rótarýklúbbi Reykjavíkur, Miðborg. Þess má geta að Rótarýklúbbur Reykjavíkur Miðborg hefur einnig verið með námskeið af sama toga fyrir 10. bekk í Hagaskóla.

Verkefnið er uppbyggt á þann hátt að rótarýfélagi mætir í kennslustund hjá 9. bekk og heldur fyrirlestur um mikilvægi framsögu og ræðumennsku. Slíkt undirbýr nemendur og stuðlar að því að þeir geti á sem bestan hátt komið á framfæri málefnum sem eru þeim hugleikin. Nemendur undirbúa kynningu í næstu kennslustund um áhugamáli sín, sérþekkingu, hljóðfæraleik eða gæludýri heimilisins eða hverju því sem nemandinn sjálfur ákveður og hefur áhuga á. Eftir flutning á fyrirlestrinum gefst öðrum nemendum tækifæri á að spyrja viðkomandi út í efnið og fær hann einkunn fyrir frammistöðu og efnistök. Flutningur nemenda getur staðið í 1-2 kennslustundir og fá allir tækifæri til að spreyta sig í framsögn.

Fjöldi bekkja getur verið 5-8 á hverju ári og þarf jafn marga rótarýfélaga til að flytja fyrirlestrana.

Margir klúbbar inn umdæmisins taka þátt í samfélagsverkefnum innan Rótarý en þar má nefna (langt í frá tæmandi listi):

Samfélagsverkefni Rótarýklúbbs Reykjavíkur Breiðholt hafa m.a. verið styrkveitingar til kórs aldraðra í Gerðubergi, námsverðlaunum til nemenda í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og námsverðlaunum til grunnskólanna í Breiðholti.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar hefur m.a. tekið þátt í endurbyggingu Hús Bjarna riddara, trjárækt og fegrun bæjarins og fleira.

Rótarýklúbbur Skagafjarðar tók þátt í átaksverkefni varðandi uppbyggingu útivistarsvæðis í Litla-Skógi á Sauðárkróki.

Rótarýlundurinn hjá Rkl. Mosfellssveitar er trjáræktarsvæði við Skarhólabraut í Mosfellsbæ. Finna má fleiri skógræktarsvæði á landinu sem hafa fengið nafnið „Rótarýlundur“.

Rótarýklúbburinn á Ísafirði hefur veitt viðurkenningar í grunnskólum bæjarins fyrir ástundun og framfarir.

Að endingu má nefna að Rótarýhreyfingin hefur tekið þátt í mörgum samfélagsverkefni erlendis, eins og samfélagsverkefnum á Indlandi og Afríku við vatnsbrunnagerð, aðstoð við stíflugerð og bólusetningarherferð gegn lömunarveiki (pólíó, mænuveiki, mænusótt) svo eitthvað sé nefnt.




Skoðun

Sjá meira


×