Erlent

Sjálfsævisaga fjöldamorðingja stöðvuð rétt fyrir útgáfu

Atli Ísleifsson skrifar
Robert Pickton er alræmdasti fjöldamorðingi í sögu Kanada.
Robert Pickton er alræmdasti fjöldamorðingi í sögu Kanada.
Ævisaga sem virðist hafa verið skrifuð af þekktasta fjöldamorðingja Kanada hefur verið tekin úr umferð, nokkrum klukkustundum áður en hún fór í almenna sölu.

Milljónamæringurinn og svínabóndinn Robert Pickton var dæmdur árið 2007 fyrir morðin á sex konum. Að auki var hann kærður fyrir morð á tuttugu konum til viðbótar en þeim málum var aldrei lokað.

Svo virðist sem félagi hans í fangelsinu þar sem hann dúsir nú hafi aðstoðað Pickton við að koma handriti bókarinnar út úr fangelsinu. Pickton heldur fram sakleysi sínu og hafði áður gefið það út að hann hyggðist gefa út ævisögu sína.

Pickton var sakfelldur fyrir sex morð, en fyrsta fórnarlambið hvarf í Eastside-hverfi Vancouver árið 1983, en flestar konurnar hurfu árið 1995. Lögregla var sökuð um að bregðast seint við mannshvörfunum þar sem fjöldi kvennanna voru fíklar og störfuðu sem vændiskonur.

Lögregla leitaði á búgarði Pickton árið 2002 þar sem einhverjar eigur og líkamsleifar 33 kvenna fundust.

Málið vakti gríðarlega athygli og þótti sannað að Pickton hafi gefið svínum sínum einhver lík kvennanna. Réttarhöldin voru einhver þau dýrustu í sögu Kanada og hófust árið 2007 þar sem dómari líkti málinu við hryllingsmynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×