Innlent

Strætó skoðar að leyfa gæludýr í vögnunum

Ingvar Haraldsson skrifar
Gæludýr eru bönnuð í strætisvögnum eins og sakir standa hér á landi en leyfð í strætisvögnum nágrannalanda okkar.
Gæludýr eru bönnuð í strætisvögnum eins og sakir standa hér á landi en leyfð í strætisvögnum nágrannalanda okkar. vísir/ernir
Stjórn Strætó er með til skoðunar að leyfa gæludýr í strætisvögnum. „Okkur langar virkilega að fara að skoða það að gæludýr verði leyfð í Strætó í bandi eða búri og fara í tilraunverkefni með það,“ segir Sverrir Óskarsson, fulltrúi Kópavogs í stjórn Strætó.

„Við erum að hvetja fólk til bíllauss lífsstíls og nota almenningssamgöngur en þá verðum við náttúrulega líka að leyfa að fara með dýrin í heimsókn til annarra eða fara með dýrin til dýralæknis. Við getum ekki sagt bíllaus lífsstíll og svo sagt enginn í strætó nema manneskjur,“ segir Sverrir.

Sverrir Óskarsson segir það stangast á við hugmyndir um bíllausan lífsstíl að banna gæludýr í strætó. fréttablaðið/anton
„Þetta er gert alls staðar annars staðar og við höfum velt fyrir okkur af hverju við erum eitthvað öðruvísi,“ segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.

Jóhannes á von á því að málið verði tekið fyrir á stjórnarfundi í haust og ákvörðun tekin í framhaldi af því.

Stjórn Strætó hefur látið vinna skýrslu um málið þar sem álit var fengið frá helstu hagsmunaðilum. „Við vildum skoða þetta mál til þess að hafa upplýsingar um hvernig þetta væri gert og hvaða sjónarmið væru með á móti,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segir margoft hafa verið ýtt á Strætó að leyfa gæludýr í strætisvögnum. „Það er til Facebook-síða sem heitir Hundar í strætó. Þetta hefur mikið verið í umræðunni í gegnum tíðina og sitt sýnist hverjum,“ segir hann. Á síðasta ári fór fram undirskriftasöfnun þar sem hvatt var til að leyfa gæludýr í strætó þar sem söfnuðust ríflega fjögur þúsund undirskriftir.

Hundurinn Vaskur bíður með eiganda sínum eftir strætó á Bústaðaveginum. Nú gæti biðin farið að styttast fyrir Vask.vísir/hanna
Sverrir bendir á að reglugerð um hollustuhætti banni flutning dýra í almennum farþegarýmum samgöngutækja að undanskildum hjálpar­hundum. Því þurfi væntanlega að gera breytingar á reglugerðinni eða veita undanþágu frá henni til þess að hægt sé að hleypa gæludýrum í strætó.

Sverrir tók málið upp á bæjarstjórnarfundi hjá Kópavogsbæ þar sem hann situr sem bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar. „Mér heyrist bæjar­stjórn Kópavogs vera mjög jákvæð,“ segir hann. Einnig hafi stjórnarmenn í Strætó tekið jákvætt í hugmyndina þó engin ákvörðun hafi verið tekin.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×