Skoðun

Raunveruleiki fyrir 2% þjóðarinnar!

Vilborg Oddsdóttir skrifar
Það má búast við að ég sé að drepa alla gleði og stemningu sem ríkir á landinu með því að fara að tala um sárafátækt, en ég læt vaða enda málið mér skylt. Á Íslandi lifa tvö prósent þjóðarinnar við sárafátækt, sem gerir 6.400 einstaklingar sem búa við alvarlegan skort á efnislegum gæðum, geta ekki borðað þann mat sem ráðlegt er að borða, ekki mætt óvæntum útgjöldum, ekki greitt fyrir lyf né læknisþjónustu nema að láta annað, eins og húsaleigu eða mat, sitja á hakanum. Eitt er öruggt að þær fjölskyldur sem búa við sárafátækt fara ekki í sumarfrí með börnin sín eða geta greitt fyrir áskrift af EM í fótbolta til að fylgjast með strákunum okkar.

Ég hef undanfarin ár velt því fyrir mér hvernig við getum útrýmt sárafátækt, hvert sé hlutverk stjórnmálamanna, hvað þeir sem búa við þessar aðstæður geta gert og hvert hlutverk fagfólks sé. Eitt er víst að lausnin er að allir þessir aðilar verða að vinna saman til að breyta og bæta líf þeirra fjölskyldna sem búa við sárafátækt. Þrátt fyrir vilja og fögur fyrirheit þá hefur ekki tekist að breyta þessari nöturlegu staðreynd.

Ég hef velt fyrir mér hvort það geti legið í því hvernig og hvaða upplýsingar stjórnmálamaðurinn fær til að geta tekið réttar ákvarðanir. Hversu oft fá þeir sem búa við fátækt að vera með í stefnumótun eða ákvarðanatöku t.d. innan sveitarfélaga þegar verið er að fjalla um gjaldskrá eða niðurskurð á þjónustu. Svarið er nánast aldrei. Í stað þess að vera í beinu samtali við þá sem búa við fátækt er leitað til hagsmunasamtaka og fagfólks og það er á okkar ábyrgð að túlka þarfir hópsins sem til okkar leitar. Þar liggur hættan, við erum alltaf að túlka eða að bera á milli.

Það verður að opna aðgengi fyrir þá sem búa við sárafátækt til þeirra sem taka ákvarðanir, aðeins á þann hátt er hægt að taka þau skref sem til þarf til að útrýma fátækt á forsendum þeirra sem við hana búa.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júlí




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×