Innlent

Ekki undanþága vegna sparnaðar í útlöndum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Seðlabanki Íslands viðhefur eftirlit með því að lögum og reglum um gjaldeyrismál sé framfylgt, sem og því að þeir sem fengið hafi undanþágu frá ákvæðum laga um gjaldeyrismál framkvæmi ekki annað en þeim hefur verið veitt heimild til, að því er fram kemur í svari til bankans til Fréttablaðsins.
Seðlabanki Íslands viðhefur eftirlit með því að lögum og reglum um gjaldeyrismál sé framfylgt, sem og því að þeir sem fengið hafi undanþágu frá ákvæðum laga um gjaldeyrismál framkvæmi ekki annað en þeim hefur verið veitt heimild til, að því er fram kemur í svari til bankans til Fréttablaðsins. Fréttablaðið/GVA
Ekki hefði fengist undanþága frá gjaldeyrishöftum til söfnunar inn á eftirlaunasjóð Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem vistaður var í aflandsfélagi í Panama.

Þetta kemur fram í svari Seðlabankans við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Júlíus Vífill Ingvarsson vill ekkert tjá sig frekar um aflandsfélag. Fréttablaðið/Daníel
Júlíus Vífill sagði sig frá borgarstjórn um síðustu mánaðamót eftir að ljóst var að nafn hans væri tengt félagi í Panama-skjölunum svonefndu.

Í svari Seðlabankans kemur fram að fjármagnshreyfingar á milli landa séu bundnar takmörkunum í samræmi við ákvæði laga og reglna um gjaldeyrismál. Aðeins sé unnt að flytja fjármuni á milli landa ef það er sérstaklega undanþegið takmörkunum eða á grundvelli sérstakrar undanþágu frá Seðlabanka Íslands.

„Innlendum aðilum er óheimilt að flytja fjármuni af reikningum sínum hjá fjármálafyrirtæki hér á landi yfir á reikning í sinni eigu hjá fjármálafyrirtæki erlendis í þeim tilgangi einum að halda úti sparnaði erlendis,“ segir þar jafnframt.

Um leið er þó bent á að innlendur aðili geti átt fjármuni erlendis, sem ekki séu háðir skilaskyldu hingað til lands í samræmi við ákvæði laga um gjaldeyrismál, til dæmis vegna þess að fjármunir hafi verið í eigu viðkomandi aðila frá því fyrir 28. nóvember 2008 þegar fjármagnshöft voru innleidd hér á landi.

„Í slíkum tilvikum getur innlendur aðili flutt þá fjármuni á milli tveggja bankareikninga í sinni eigu erlendis þar sem það telst ekki fjármagnshreyfing á milli landa í skilningi laga um gjaldeyrismál.“

Fram kom í umfjöllun Kastljóss 3. apríl að félag Júlíusar Vífils hefði verið stofnað í Panama í ársbyrjun 2014 og rík áhersla lögð á að leyna eignarhaldi hans. Ekki liggja fyrir upplýsingar um greiðslur í félagið.

Júlíus Vífill vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar eftir því var leitað í gær, en vísaði þess í stað til yfirlýsingar sinnar frá 1. apríl og ræðu á í borgarstjórn 5. apríl, en þá var lausnarbeiðni hans frá borgarstjórn samþykkt. Þá sagði hann að allt sem við kæmi þessum sjóði væri í samræmi við íslensk lög og reglur.

„Enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið,“ segir í yfirlýsingu Júlíusar Vífils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×