Erlent

Bílasprengja í Jerúsalem

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Sprengjan sprakk í vesturhluta Jerúsalem.
Sprengjan sprakk í vesturhluta Jerúsalem. Vísir/Getty
Að minnsta kosti 15 manns eru særðir eftir að rúta sprakk í vesturhluta Jerúsalem rétt í þessu. Sprengingin átti sér stað á Hebron stræti og logar eldur aftan úr rútunni og mikill reykur er í lofti.

Fjölmiðlar í Israel segja að minnsta kosti tveir séu alvarlega særðir. Flestir hinna særðu fengu brunasár eða eiga í erfiðleikum með öndun vegna reyksins. Lögreglan í Jerúsalem segir þetta hafa verið árás.

Rútan var mannlaus þegar hún sprakk en þeir sem meiddust voru farþegar í nærliggjandi rútu. Önnur rútan var alelda á meðan hin rútan skaðaðist töluvert í sprengingunni.

Ef svo reynist rétt vera, er þetta fyrsta sprengjutilræðið í Jerúsalem síðan árið 2008, eða undir lok seinni Intifödu.

Aljazeera greindi frá.

Greinin var uppfærð kl. 16:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×