Skoðun

Hvað nú, gott fólk?

Páll Valur Björnsson skrifar
Fræðimenn sem rannsaka orsakir og afleiðingar spillingar og alþjóðlegar stofnanir og frjáls samtök sem berjast gegn henni eru á einu máli um hvað það er sem einkennir óspillt stjórnmál og stjórnsýslu þar sem unnið er að heilindum í þágu almennings.

Það sem einkennir þannig stjórnmál hefur verið kallað Good Governance á ensku (stjórnfesta á ísl.) og byggist á vilja til að leita allmennrar sáttar og málamiðlana, virkri þátttöku almennings, gagnsæi við meðferð mála og töku ákvarðana, óháðum fjölmiðlum sem eru lausir við afskipti stjórnmálaflokka, virðingu stjórnvalda fyrir skoðunum og þörfum almennings og vilja til að taka ábyrgð á gerðum sínum og beitingu valds.

Er þetta lýsing sem á við íslensk stjórmál og stjórnarfar?

Svari nú hver fyrir sig.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að finna allmörg góð markmið og sum mjög í þeim anda sem að framan er lýst.

Þar kemur m.a. fram að: 

• Virkja eigi samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.

• Samfélagið eigi að vera samvinnuverkefni. 

• Landið okkar eigi að vera fjölskylduvænt þar sem börn búi við jöfn tækifæri. 

• Stuðla skuli að því að yngstu kynslóðirnar öðlist trú á framtíð lands og þjóðar.

Og hvernig hafa nú efndirnar verið?

Hefur þessi ríkisstjórn virkjað samtakamátt þjóðarinnar og unnið gegn sundurlyndi og tortryggni?

Hefur þessi ríkisstjórn sýnt í verki að hún líti svo á að samfélagið sé samvinnuverkefni?

Hefur þetta verið ríkisstjórn sem ber hag barna fyrir brjósti og forgangsraðar í þágu barna og tryggir þeim jöfn tækifæri? 

Ég hef fylgst náið með störfum og verkum þessarar ríkisstjórnar undanfarin þrjú ár. Það hefur ekki verið auðvelt, hvorki fyrir mig né aðra sem hafa þá sannfæringu að stjórnmál eigi að snúast um hagsmuni almennings í okkar góða landi og ekkert annað. 

Þessi ríkisstjórn hefur nefnilega ekki gert neitt til að virkja samtakamátt þjóðarinnar en hún hefur gert mjög mikið til að ala á sundrungu meðal hennar og gefið henni ærin tilefni til að fyllast vantrausti og tortryggni.

Þessi ríkisstjórn hefur virt vilja og hagsmuni almennings að vettugi en varið sérhagsmuni eins og grimmur hundur. Þessi ríkisstjórn hefur misbeitt valdi, óttast gagnsæið, vegið að frjálsum fjölmiðlum og ráðherrar í henni hafa ítrekað verið staðnir að því að leyna almenning upplýsingum um tengingar og hagsmuni sem hefur hreint ekki að ástæðulausu birst sem spilling og fullkomin vanvirðing við lýðræðið. 

Þessi ríkisstjórn hefur ekki sýnt snefil af auðmýkt eða sáttfýsi en hefur aldrei skort valdhrokann og geðþóttann. Fögru orðin í stefnuskránni sem áður eru nefnd hafa reynst innihaldslaus fagurgali, sem er eiginlega vandræðalegt að lesa núna þegar fyrir liggur hvernig til hefur tekist.

Þessi ríkisstjórn hefur deilt og drottnað í þágu sérhagsmuna.

Glatað tækifæri

Alþjóðlegu samtökin Transparency International vinna gegn spillingu um allan heim. Samtökin njóta mikillar virðingar og er hvarvetna mikið mark tekið á því sem þau segja og gera. Samtökin meta reglulega hversu mikið vandamál spilling er í flestum ríkjum heims og raða löndum samkvæmt því. Ísland hefur verið á hraðri leið niður þennan lista og skyldi engan undra eftir hrunið og alla þá spillingu og alls kyns svívirðilegt sukk sem þá kom í ljós. Og þá fengum við aldeilis tækifærið til að læra af mistökunum og gera nauðsynlegar breytingar á samfélaginu okkar þannig að hagsmunir almennings yrðu þar alltaf í fyrirrúmi. Við létum gera ítalega úttekt á þessu öllu saman, rannsóknarskýrslu Alþingis. Til að vita hvað grðist og til að læra af því. Ef einhver ráðherranna skyldi vilja glugga í þá gagnlegu skýrslu má örugglega finna hana einhvers staðar uppi í efstu hillu á skrifstofu forsætisráðherra undir rykföllnum skjalabunka. 

Upplýsingar sem nú hafa komið fram sýna svo ekki verður um villst að við klúðruðum tækifæri okkar til að stinga á spillingarkýlunum. Stjórnmálin og samfélagið eru óbreytt. Almannahagsmunir víkja enn fyrir sérhagsmunum. Upplýsingar sem nú liggja fyrir munu fella Ísland enn þá neðar á spillingarlista Transparency International. Það er enginn vafi á því og við eigum ekki annað skilið.

Annar séns?

En við fáum nú annað tækifæri til að læra af reynslunni, af hruninu og aflandssukkinu og leyndinni og sérhagsmunadekrinu. Tækifæri til að breyta samfélaginu okkar og stjórnmálunum þannig að almannahagsmunir verði þar í ávallt í öndvegi. Og við höfum tækin og leiðirnar til þess sem sannað er að virka. Við þurfum bara að krefjast þess að stjórnmál í landinu einkennist af vilja til að leita allmennrar sáttar og málamiðlana, virkri þátttöku almennings, gagnsæi við meðferð mála og töku ákvarðana, óháðum fjölmiðlum sem eru lausir við afskipti stjórnmálaflokka, virðingu stjórnvalda fyrir skoðunum og þörfum almennings og vilja til að taka ábyrgð á gerðum sínum og beitingu valds.

Ætlum við að gera þetta núna eða ætlum við fljóta áfram sofandi að feigðarósi? Ætlum við að treysta því að við fáum kannski enn eitt tækifæri einhvern tíma síðar til að vinda ofan af spillingunni og sérhagsmunasukkinu og skapa hér óspillt samfélag þar sem stjórnmálin snúast um hagsmuni almennings í landinu í nútíð og framtíð?

Það væru mikil svik við okkur sjálf og enn alvarlegri við börnin sem landið erfa.




Skoðun

Sjá meira


×