Skoðun

Rangfærslum svarað um nýtt háspennumastur Landsnets

Einar Snorri Einarsson skrifar
Óhjákvæmilegt er annað en að svara rangfærslum sem fram koma í aðsendri grein í Fréttablaðinu 14. apríl sl. um nýja gerð raflínumasturs sem Landsnet er að prófa um þessar mundir og gengur undir nafninu „Ballerínan“. Þrátt fyrir að upplýsingar um hið gagnstæða liggi fyrir gefur greinarhöfundur sér að þessi nýja gerð mastra muni leysa eldri gerðir af hólmi um land allt og hefur af því þungar áhyggjur.

Hið rétta er að Ballerínan er einkum fyrirhuguð á svæðum „þar sem pláss er lítið og línugata þröng“ eins og fram kom í nýlegri grein þar sem Landsnet kynnti þróun og tilraunir með nýjar gerðir mastra. Einn meginkosta Ballerínunnar er bætt ásýnd og hún fellur því betur að umhverfinu en eldri gerðir.

Sambærilegt kolefnisspor

Meintur þungi mastursins og kolefnisspor þess er greinarhöfundi hugleikið. Hið rétta er að mastrið er sambærilegt að þyngd og hefðbundin frístandandi möstur og kolefnissporið sambærilegt. Sú fullyrðing höfundar er óskiljanleg að 30 metra hátt mastrið sé flutt inn til landsins í heilu lagi. Mastrið er flutt í einingum inn til landsins í gámi eins og venja er og sett saman hérlendis.

Eins og í fyrri greinum sínum dregur höfundur upp þá mynd af Landsneti að þar fari fyrirtæki fortíðar. Landsnet hefur reyndar, eitt fárra flutningsfyrirtækja í heiminum, gert mat á umhverfisáhrifum flutningskerfisins með aðferðum vistferilgreiningar, þar sem m.a. kolefnisfótsporið er greint.

Vel fylgst með nýsköpun

Landsnet fylgist náið með nýsköpun á sviði raforkuflutningskerfa og á í samstarfi við Statnett í Noregi sem heldur úti öflugu nýsköpunarstarfi, m.a. um möguleika á notkun kol­trefja og áls í raflínumöstur. Landsnet fylgist jafnframt grannt með starfi vinnuhóps hjá Cigré (International Council on Large Electric Systems) um möstur úr trefjaefni. Þar eiga sæti helstu sérfræðingar heimsins á því sviði og sátu fulltrúar Landsnets m.a. vinnufund hópsins sem haldinn var á Íslandi 13.-14.apríl sl.

Greinarhöfundur, sem er jafnframt forsvarsmaður Línudans, víkur í grein sinni að hugmyndafræði, siðferðismati og heiðarleika. Í því samhengi er fróðlegt að líta til samnings sem undirritaður var á milli Landsnets og Línudans um þróun fisléttra háspennumastra. Samkvæmt þessum samningi átti Landsnet að fá upplýsingar um framgang verkefnisins á sex mánaða fresti en nú eru meira en þrjú ár liðin án þess að upplýsingar hafi borist um framvinduna. Ekkert lát er hins vegar á blaðagreinum, þar sem reynt er að gera starfsemi Landsnets tortryggilega með endurteknum rangfærslum.




Skoðun

Sjá meira


×