„Við vorum bara að spjalla við einhverja Frakka og það kemur gaur að okkur sem spyr hvort við séum Íslendingar. Við svörum játandi og sekúndu seinna er nefið farið í sundur,“ segir Arnar Þór í samtali við Vísi. Nefið hafi hreinlega rifnað af en sauma þurfti tuttugu spor.
Hann segir hlutina hafa gerst svo hratt að hann hafi varla áttað sig á því. Allt í einu hafi hann verið með hluta af nefi sínu í höndinni. Hann hafi nú horft á myndbandsupptökur með lögreglunni í París og þar sést hve skyndileg árásin varð. Þetta hafi bókstaflega gerst á einni sekúndu.
Arnar ræddi árásina einnig í úvarpsþættinum Harmageddon en viðtalið má heyra hér að neðan.
Sjá einnig: Flöskum kastað í íslenska fjölskyldu eftir leik
Arnar Þór var á lögreglustöð í París þegar Vísir náði af honum tali. Hann bar sig vel, lagði áherslu á mikilvægi þess að geta séð með báðum augum enda stórleikurinn framundan á sunnudaginn, sem Arnar Þór ætlar svo sannarlega ekki að missa af.
Mikill fjöldi Íslendinga skemmti sér konunglega á þessum sama írska bar kvöldið fyrir og eftir að okkar menn lögðu Austurríkismenn á Stade de France í lokaumferð riðlakeppninnar. Staðurinn heitir O’Sullivans, er afar stór og við hlið Rauðu Myllunnar.
Að neðan má sjá svipmyndir frá stemningunni eftir leikinn gegn Austurríki.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).