Erlent

Hollande hrósað fyrir að náða konu sem drap ofbeldisfullan eiginmann

Atli ísleifsson skrifar
Francois Hollande náðaði Jacqueline Sauvage eftir að hafa átt fund með dætrum konunnar og lögmanni hennar fyrir helgi.
Francois Hollande náðaði Jacqueline Sauvage eftir að hafa átt fund með dætrum konunnar og lögmanni hennar fyrir helgi. Vísir/EPA
Almenn ánægja hefur verið með ákvörðun François Hollande Frakklandsforseta um að náða konu sem dæmd var í tíu ára fangelsi fyrir að hafa skotið eiginmann sinn til bana.

Maðurinn hafði ítrekað nauðgað konunni og þremur dætrum þeirra á nokkurra áratuga tímabili.

Mál hinnar 68 ára Jacqueline Sauvage hefur vakið mikla athygli í Frakklandi og höfðu rúmlega 400 þúsund manns ritað undir áskorun til forsetans um að náða konuna.

Í frétt BBC kemur fram að lögmaður konunnar segi ákvörðun Hollande ekki einungis vera skilaboð til Sauvage heldur allra þeirra kvenna sem beittar eru ofbeldi.

Í frétt Aftonbladet kemur fram að konan hafi verið gift manninum í 47 ár þar sem hann ítrekað nauðgaði henni og dætrum þeirra, auk þess að beita þeim og syni hjónanna líkamlegu ofbeldi.

Degi eftir að sonur hjónanna framdi sjálfsvíg í september 2012, skaut konan manninn þrívegis í bakið með þeim afleiðingum að hann lést.

Konan sagðist hafa skotið manninn í sjálfsvörn og fékk tíu ára dóm. Henni verður sleppt í apríl eftir að hafa þá setið inni í rúm þrjú ár.

Hollande náðaði konuna eftir að hafa átt fund með dætrum konunnar og lögmanni hennar fyrir helgi.

Þetta er einungis í annað sinn sem Hollande náðar fanga, en áður hafði hann náðað dæmdan bankaræningja sem hafði setið í fangelsi í 38 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×