Skoðun

Grensásvegur

Sigurður Oddsson skrifar
Fyrirsögnin „Borgin ætlar að spara 1,7 milljarða á árinu“ minnti mig á íbúafund 28. janúar. Borgarstjóri kynnti mjókkun Grensásvegar úr tveimur + tveimur akreinum í eina + eina. Við það fást breiðari gangstéttar og hjólabrautir beggja vegna. Breytingin kostar um um 10% af áætluðum niðurskurði borgarinnar 2016.

Áður var meginnauðsyn mjókkunar sögð slysahætta. Nú er helsta ástæðan of mikil flutningsgeta Grensásvegar, sem auk þess er kominn á tíma. Ekki veit ég hvað borgarstjóri á við með kominn á tíma. Grensásvegur er síst verri en flestar götur í bænum. Hvað með Bústaðaveg þar sem vatn rennur eftir hjólförum fram hjá öllum niðurföllum, smýgur niður í malbikið og skemmir? Á fundinum benti ég á að ódýrara væri að mjókka eyju á milli akreina. Þá fengjust bæði hjólabrautir og breiðar gangstéttir. Borgarstjóri taldi það ekki muna neinu, þegar komið væri af stað og ítrekaði að flutningsgetan yrði aldrei nýtt.

Ég velti fyrir mér slysahættu af hjólreiðamönnum og hvort nýting hjólabrauta og rekstur borgarinnar réttlæti þessa sóun skattpeninga? Það eru fleiri svona dæmi sóunar í borginni, eins og t.d. tvær brýr fyrir hjólandi og fótgangandi út í Geirsnef. Hver skyldi nýtingin vera þar? Dýr ljósaskilti við Bústaðaveg eiga að sýna að bannað er að beygja til vinstri við Reykjanesbraut, en virka þveröfugt. Þeir sem þekkja skilti skilja þau þannig að ekki megi beygja til vinstri, við Grensásveg, Réttarholtsveg og Sogaveg. Á skiltunum er ill læsilegur texti „við Reykjanesbraut“. Margir, sem vita ekki hvar Reykjanesbraut er enda á að aka eftir henni í Kópavog.

Aukið álag á helstu umferðaræðar

Við breytingu Grensásvegar úr 2 + 2 í 1 + 1 lækkar hámarkshraði úr 50 km/klst. í 30 km/klst. og flutningsgeta minnkar. Ódýrara væri að lækka hámarkshraða í 30 km/klst. án þess að breyta veginum. Það kostar bara merkingar. Miðað við ýmislegt, sem áður hefur komið frá þeim Degi og Hjálmari er ljóst að markmiðið er að ná aksturshraða niður fyrir 30km/klst. í allri borginni. Þessu markmiði sínu hafa þeir náð með þrengingum og hraðahindrunum á t.d. Hofsvallagötu, Borgartúni, Háaleitisbraut, Skeiðarvogi og fleira mætti nefna. Við þessar aksturshindranir eykst álag á helstu umferðaræðar, sem stíflast og hraði fer niður fyrir 30 km/klst. á álagstímum. Við það eykst mengun og vinnustundir tapast.

Á fundinum benti ég á slysahættu við hraðahindrun með þrengingu á Réttarholtsvegi. Sá sem ekur þeim megin sem þrengingin er ekki á réttinn og sá sem ekur þeim megin sem þrengingin er ætti að bíða, ef ekki logaði grænt umferðarljós í báðar áttir. Þetta er eins og að við einbreiða brú logaði stöðugt grænt ljós við báða enda brúarinnar. Vonandi fara skattpeningar ekki að bæta tjón sem þarna gæti orðið.

Minnst tvisvar á dag ek ég um hverfið. Á þessum ferðum mínum hefi ég ekki séð einn einasta hjólandi mann síðan í haust. Þá var veður gott og trén enn græn, eins og á arkitektamyndum, sem borgarstjóri sýnir á íbúafundum. Það kom enginn á hjóli á fundinn í Breiðagerðisskóla, því þá var vetur og snjór. Mestan hluta ársins er ekki hjólað vegna veðurs og margt, sem mætti forgangsraða til bóta fyrir akandi og gangandi vegfarendur allt árið.

Nýlega var í fréttum kostnaður heyrnartóla hjá borginni. Molar eru líka brauð og ekki furða, að rekstur borgarinnar sé eins og raun ber vitni.




Skoðun

Sjá meira


×