Skoðun

Endurupptökunefnd – hvað er nú það?

Ragnar Halldór Hall skrifar
Með lögum nr. 15/2013 var bætt inn í dómstólalög kafla um sérstaka nefnd sem taka skyldi ákvarðanir um hvort mál sem lokið hefur verið fyrir dómstólum skuli endurupptekin. Tilsvarandi ákvæðum var bætt inn í lög um meðferð einkamála og sakamálalög. Nefndin sem hér var sett á fót heitir endurupptökunefnd. Í lögunum segir að hún sé sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem taki ákvörðun um hvort mál skuli endurupptekin. Þar segir enn fremur að fallist nefndin á að mál skuli endurupptekið sé viðkomandi dómur fallinn úr gildi og að nýr dómur skuli þá ganga í málinu, en hafni nefndin beiðni sé sú úrlausn endanleg og verði ekki borin undir dómstóla.

Með dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2016 voru lagareglur um endurupptökuefnd til skoðunar í máli þar sem nefndin hafði fallist á endurupptökubeiðni. Niðurstöður dómsins voru afdráttarlausar um eftirfarandi atriði:

Ákvæðin um að endurupptökunefnd ákveði hvort mál skuli endurupptekin fara í bága við ákvæði 60. gr. stjórnarskrárinnar. Hvað sem liði niðurstöðu nefndarinnar um hvort skilyrði endurupptöku væru uppfyllt tæki dómurinn það sjálfstætt til skoðunar hvort lög hefðu „með réttu“ staðið til þeirrar niðurstöðu sem nefndin hafði komist að í málinu. Dómurinn taldi að svo hefði ekki verið, og er sú niðurstaða rökstudd í alllöngu máli í dóminum.Lagaákvæði sem kveða á um að nefnd sem heyrir undir framkvæmdarvald ríkisins geti fellt úr gildi úrlausnir dómstóla séu einnig andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins og séu þess vegna ekki gild réttarheimild.

Lagaákvæðum um endurupptökunefnd var á sínum tíma ætlað að taka þann kaleik frá dómstólum að þeir taki ákvörðun um hvort mál skuli endurupptekin. Sú viðleitni hefur farið út um þúfur og lagaákvæðin um nefndina eru því hreinn bastarður. Hér var því verr af stað farið en heima setið.

Spurningunni í fyrirsögn hér að ofan hljóta menn að svara þannig að endurupptökunefnd sé eingöngu umsagnaraðili um hvort rétt sé að fallast á endurupptökubeiðni. Jafnframt sýnist ljóst af efnistökum Hæstaréttar að fallist nefndin ekki á slíka beiðni geti viðkomandi aðili látið reyna á synjunina í almennu dómsmáli með vísan til 60. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt þessu öllu er ljóst að tilraunabúskapurinn með endurupptökunefnd hefur algerlega farið út um þúfur.




Skoðun

Sjá meira


×