Þetta kom fram í máli Ingu í Kosningaspjalli Vísis í dag.
Hún segist finna fyrir töluverðum meðbyr með málflutningi sínum en flokkur hennar hefur verið að mælast með um 4% fylgi að undanförnu. Flokkur fólksins leggi þunga áherslu á málefni aldraðra, fátækra og öryrkja en hún sé sjálf 75% öryrki og segist því þekkja hvernig það er að þurfa að neita sér um margt - líkt og margir aðrir í hennar stöðu.
„Mér fannst kannski kominn tími til að það kæmi einhver rödd fram sem að veit á eigin skinni hvað hún er að tala um,“ segir Inga aðspurð um hvers vegna hún hafi ákveðið að bjóða fram krafta sína.
„Ef ég get hjálpað til að laga eitthvað þannig að við getum öll haft það betra þá er ég hingað komin með Flokk fólksins til þess að gera það.“
Erfitt að eiga samleið með þeim sem þekkja ekki aðstæðurnar
Hún sé þó ekki ein í flokknum. Flokkur fólksins sé skipaður einstaklingum sem áður hafi barist fyrir hagsmunum þessara þjóðfélagshópa, til að mynda innan Sjálfsbjargar og Bótar, félags um bætt samfélag.
„Í rauninni get ég ekki séð samleið með neinum öðrum sem er ekki að upplifa það sem við erum að berjast fyrir,“ segir Inga og það sé því ekki síst þess vegna sem þau hafi ákveðið að leggja áherslu á þessa málaflokka; heilbrigðis- og velferðarmál, því þau þekki kerfið af eigin hendi.
„Ég held að fólk sé byrjað að átta sig á því að ef stöndum ekki saman þá hjálpar okkur enginn ef við gerum það ekki sjálf,“ segir Inga. „Við viljum bara að fleiri hafi það betra.“
Í spilaranum hér að ofan má sjá viðtalið við Ingu þar sem verðtrygging, lífeyrissjóðirnir og stjórnarskrárbreytingar bera einnig á góma.