Viðskipti innlent

Harpa nýr framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Harpa Jónsdóttir.
Harpa Jónsdóttir. Vísir
Harpa Jónsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands.

Harpa hefur gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs síðastliðin fimm ár. Áður starfaði Harpa sem forstöðumaður rannsókna og viðbúnaðar hjá Seðlabankanum og við áhættustýringu hjá Sparisjóðabankanum og Glitni.

Hagvangur annaðist formlegt ráðningarferli en valnefnd lagði mat á umsækjendur og gerði tillögu um ráðninguna. Í valnefnd sátu Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Friðrik Már Baldursson prófessor í hagfræði í Háskólanum Reykjavík, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Með hliðsjón af reynslu Hörpu af rannsóknum, stefnumótun og stjórnun og þekkingu á fjármálakerfinu var valnefndin einhuga í þeirri afstöðu sinni að mæla með henni og seðlabankastjóri hefur því ákveðið að ráða Hörpu í starfið segir í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Þar segir einnig að í störfum sínum hafi Harpa öðlast víðtæka reynslu af rannsóknum og stefnumótunarvinnu. Hún hefur setið sem varamaður í stjórn Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2012. Harpa er með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands, og MS- og Ph.D-gráðu í verkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet.

Hlutverk fjármálastöðugleika er að greina áhættu í fjármálakerfinu og taka þátt í mótun varúðarreglna fyrir fjármálakerfið. Fjármálastöðugleiki hefur einnig umsjón með starfsemi kerfisáhættunefndar og tekur þátt í víðtæku alþjóðlegu samstarfi varðandi regluverk og eftirlit með fjármálakerfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×