Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri Símans. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.915 milljónum króna og hækkar um 104 milljónir eða 5,7 prósent. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 864 milljónum króna samanborið við 765 milljónir á sama tímabili í fyrra.
Handbært fé í lok tímabilsins nam 1,1 milljónum króna en var 1,8 milljónir króna í árslok 2023. Eignafjárhlutfall Símans var 45,5 prósent og eigið fé nam 18,2 milljónum króna.
Breytingar í skipuriti með tilheyrandi kostnaði
María Björk Einarsdóttir forstjóri segir afkomu fjórðungsins heilt yfir góða og að niðurstöðurnar sýni seiglu og styrk félagsins.
„Við sáum heilbrigðan tekjuvöxt í helstu fjarskiptaþjónustum sem og sjónvarpsþjónustu, þar sem áskrifendum hefur haldið áfram að fjölga. Þá hafa fjárfestingar okkar í auglýsingamiðlum staðist þær væntingar sem gerðar voru við kaupin og haft verulega jákvæð áhrif á hlutdeild auglýsingatekna í rekstri félagsins,“ segir hún.
Í september hafi verið gerðar breytingar á skipuriti félagsins þar sem eitt stoðsvið var lagt niður og tvö ný stofnuð. Markmið breytinganna hafi verið að styrkja sölu og markaðssetningu á vörum félagsins og auka áherslu á vöru- og viðskiptaþróun.
Talsverður kostnaður fylgdi þessum breytingum, að sögn Maríu, og bættist hann við áfallinn kostnað vegna forstjóraskipta sem einnig var gjaldfærður í ársfjórðungnum.
„Í kjölfar breyttra áherslna í rekstri hófum við að endurskoða stefnumið félagsins og verða þau áform kynnt nánar á komandi mánuðum. Það liggur fyrir að félagið hyggst halda áfram að sækja fram og við munum leggja áherslu á að breikka tekjugrunn félagsins með því að þróa og bæta við vöruframboð okkar nýjum stafrænum þjónustum og lausnum sem falla vel að þörfum okkar viðskiptavina.“