Erlent

Evrópusinnaður forsætisráðherra kjörinn í Serbíu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Johannes Hahn, stækkunarstjóri ESB, Aleksandar Vucic, forsætisráðherra Serbíu, og Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborg, þegar aðildarviðræður Serbíu að ESB hófust formlega.
Johannes Hahn, stækkunarstjóri ESB, Aleksandar Vucic, forsætisráðherra Serbíu, og Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborg, þegar aðildarviðræður Serbíu að ESB hófust formlega. vísir/epa
Aleksander Vucic hefur verið lýstur sigurvegari í almennum kosningum í Serbíu en útgönguspár gera ráð fyrir að flokkur hans Framfaraflokkurinn hljóti helming atkvæða að talningu lokinni. Hann sagði heiður að Serbar hefðu aftur gefið flokknum hans færi á að leiða ríkisstjórn í Serbíu.

Vucic er hliðhollur aðild Serbíu að Evrópusambandinu og vill fara af stað með nauðsynlegar breytingar á landslögum til þess að það verði að veruleika. Þegar hann kaus sjálfur í dag sagðist hann vona að kjósendur myndu velja „hinn evrópska veg.“ Aðildarviðræður hófust í desember á síðasta ári. 

Kosningarnar eru þær þriðju í Serbíu á minna en fjórum árum.

Framfaraflokkur Vucic hefur verið við stjórnvölinn síðan 2012. Hann hlaut hreinan meirihluta í kosningunum fyrir tveimur árum en það hefur aldrei gerst áður í sögu Serbíu. Flokkurinn vill aðild að Evrópusambandinu á sama tíma og hann vill halda góðu sambandi við Rússland.

Efnahagsástand í Serbíu er ekki gott og atvinnuleysi er um 18 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×