Skoðun

Um nema í klínísku námi á Landspítala

Páll Óli Ólason skrifar
Árið 2015 var sérlega erfitt fyrir nema Háskóla Íslands sem stunduðu klínískt nám við Landspítala. Verkföll, bæði í háskólanum og á meðal heilbrigðisstarfsfólks á Landspítala, settu strik í reikninginn.

Margir misstu út mikilvæga kennslu og aðrir urðu fyrir röskunum á lokaprófum. Allt þetta er vonandi að baki og óskin er sú að árið 2016 verði verkfallslaust.

Nú þegar árið 2015 er á enda er ekki úr vegi að líta björtum augum á framtíðina. Í byrjun nóvember framkvæmdi Sviðsráð Heilbrigðisvísindasviðs Stúdentaráðs Háskóla Íslands könnun á meðal þeirra nema sviðsins sem stunda verklegt nám á Landspítala.

Var þetta í þriðja sinn sem Sviðsráðið gerir slíka könnun en hún er mikilvægt vopn í baráttu stúdenta, ekki einungis til að knýja fram breytingar heldur einnig til að veita aðhald. Í ár var ákveðið að þema könnunarinnar yrði samanburður á niðurstöðunum í ár við niðurstöður ársins í fyrra.

Alls voru spurningarnar 12 talsins og var m.a. spurt út í aðstöðu nema, hvort ábyrgð væri í samræmi við kunnáttu, hvort nemendur gætu hugsað sér Landspítalann sem framtíðarvinnustað og um viðhorf þeirra til heilbrigðismála og framtíðar íslensks heilbrigðiskerfis. Alls voru þátttakendur í ár 274 af 388 nemum í verknámi, og svarhlutfallið því rúm 70%.

Niðurstöðurnar í ár svipuðu til ársins á undan en meirihluta nema finnst aðstaða ekki við hæfi og að klínískir kennarar hafi ekki tíma til að sinna kennslu nægilega vel. Flestir eru sammála því að ábyrgðin sem nemar eru látnir axla í verklegu námi sé í samræmi við reynslu.

Aðeins 16% nema hafa jákvætt viðhorf til heilbrigðismála hérlendis sem er þó marktæk breyting til hins betra þar sem mun færri hafa neikvætt viðhorf samanborið við árið á undan. Eins hefur orðið marktæk breyting á viðhorfi til framtíðar íslensks heilbrigðiskerfis, 34% hafa jákvætt viðhorf samanborið við 19% í fyrra.

Þrátt fyrir að niðurstöðurnar í ár séu í heildina líkar niðurstöðunum frá því í fyrra og enn sé ýmislegt sem þurfi að laga sýna þær breytingar í átt til hins betra. Það er mikilvægt að fylgjast áfram með gangi mála og ekki má gleyma þeim áhrifum sem nemar geta haft á framgang eigin kennslu. Kannanir sem þessar eru mikilvægt vopn í baráttu okkar til betra náms. Við vonum að bjartari tímar séu framundan.




Skoðun

Sjá meira


×