Erlent

Sádi-Arabía geti ekki geta falið glæpina

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íranar í Teheran mótmæla aftökunni á sjía-klerknum Nimr al Nimr í Sádi-Arabíu.
Íranar í Teheran mótmæla aftökunni á sjía-klerknum Nimr al Nimr í Sádi-Arabíu. Vísir/EPA
Hassan Rúhani, forseti Írans, segir að Sádi-Arabía geti ekki „falið glæpi sína“ með því að slíta tengslin við Íran.

Hann á þar við aftökuna á sjía-klerkinum Nimr al Nimr, sem Íranar hafa fordæmt harðlega.

Þetta sagði hann á fundi með utanríkisráðherra Danmerkur, Kristian Jensen, sem skrapp í heimsókn til Írans að hitta þarlenda ráðamenn. Jensen segir spennuna milli Írans og Sádi-Arabíu vera allsráðandi umræðuefni í Íran þessa dagana, en vonaðist þó til að geta rætt samskipti Írans og Danmerkur við íranska ráðamenn.

Aftakan í Ríad, höfuðborg Sádi-Arabíu, um helgina hefur þó ekki víða verið fordæmd. Hins vegar hafa ríki víða um heim fordæmt harðlega framferði íranskra mótmælenda, sem meðal annars kveiktu í sendiráði Sádi-Arabíu í Teheran á sunnudag.

Þannig fordæmdi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í fyrrinótt íkveikjuna harðlega og skoraði á írönsk stjórnvöld að vernda sendiráð og aðrar byggingar erlendra sendifulltrúa gegn árásum eða skemmdum.

Í gær bættist Kúveit við þau ríki, sem slitið hafa stjórnmálatengsl við Íran vegna íkveikjunnar. Sádi-Arabía reið þar á vaðið, síðan gerðu Barein og Súdan slíkt hið sama. Sameinuðu arabísku furstadæmin létu sér hins vegar nægja að kalla sendiherra sinn heim frá Íran.

Sádi-Arabía segir þó að þessi stirðu samskipti við Íran eigi ekki að hafa nein áhrif á viðleitni beggja ríkjanna til að koma á friði í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×