Skoðun

Bréf Ungra jafnaðarmanna til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Ungir jafnaðarmenn skrifa:

Kæri Sigurður Ingi,


Okkur í Ungum jafnaðarmönnum langar að spyrja þig hvað sé flókið við að eiga pening á Íslandi?


Við spyrjum af einskærri forvitni, enda eigum við, líkt og flest ungt fólk á Íslandi, mjög lítinn pening. Okkar upplifun er nefnilega frekar sú að það sé flókið að eignast pening á Íslandi.

Laun eru nefnilega lág á Íslandi miðað við nágrannalönd okkar, og kaupmáttur launa sömuleiðis.

Á Íslandi erum við með námslánakerfi sem gerir ekki ráð fyrir neinum almennum styrkjum til stúdenta (ólíkt öllum hinum Norðurlöndunum), er með allt upp í 100% námsframvindukröfur og tryggir námsmönnum svo lága framfærslu að ekki er hægt að lifa á henni nema að búa í ókeypis húsnæði.

Reyni stúdentar að vinna til að drýgja framfærslulánin, lækkar framfærslan næstu önn vegna ósanngjarns frítekjumarks. 

Ef ungt fólk vill flytja út af Hótel Mömmu, stendur það frammi fyrir því vali að festast í fátæktargildru leigumarkaðar eða – takist því einhvernvegin að nurla saman útborgun fyrir íbúð – skuldbinda sig til a.m.k. 40 ára til að borga íbúðaverðið u.þ.b. tvisvar og hálf sinnum með dýrum verðtryggðum lánum.

Í nágrannalöndunum, þar sem fólk býr við eðlileg lánakjör, er fólk nær því að borga íbúðaverð u.þ.b. einu og hálf sinnum. Mismunandi lánakjör Íslendinga og nágranna okkar verða þannig til þess að ungt fólk hérlendis þarf að spyrja sig hvort búseta á Íslandi sé heillar íbúðar virði. 

Fyrir þau okkar sem langar þrátt fyrir allt að búa hér áfram, þá er það því nokkuð áhyggjuefni ef það er svo flókið að eiga peninga á Íslandi eins og þú segir að það sé. 

Það lítur nefnilega þvert á móti út fyrir að það sé töluvert auðvelt að eiga fullt af pening á Íslandi. Því virðast meira að segja fylgja ýmis forréttindi, svo sem að geta tekið hagstæðari lán, borgað fjármagnstekjuskatt (20%) í stað tekjuskatts (a.m.k. 37%) og jafnvel, ef maður er rosa ríkur, geymt peninginn í skattaskjólum erlendis.


Við hlökkum til að heyra af flækjunni sem þið moldríku ráðamenn eruð í út af öllum peningunum sem þið þurfið að burðast með.
Mynd/UJ



Skoðun

Sjá meira


×