Erlent

Þurftu að svara spurningum um afdrif peninganna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndirnar af Abdul sem komu #BuyPens herferðinni af stað.
Myndirnar af Abdul sem komu #BuyPens herferðinni af stað. myndir/twitter
Íslenskur forritari, búsettur í Noregi, og líbönsk blaðakona hafa í dag þurft að svara hvort þau hafi stungið fjármunum ætluðum flóttamanni í eigin vasa.

Framtak Gissurar Símonarsonar, #BuyPens, fangaði athygli margra í fyrra. Með herferðinni hvatti hann fólk til að styrkja sýrslenskan flóttamann. Hugmyndina fékk hann eftir að hann rakst á mynd af manninum þar sem hann stóð úti á götu og reyndi að afla sér fjár með að selja penna.

Sjá einnig: Íslenskur forritari hefur safnað sex milljónum fyrir sýrlenskan flóttamann

Maðurinn reyndist vera Abdul Halim al-Attar, 33 ára einstæður tveggja barna faðir. Markið var sett á 5.000 dollara en þegar upp var staðist höfðu 191.000 dollarar, andvirði tæplega 24 milljóna króna, safnast. Abdul á nú bakarí og tvo veitingastaði í Damaskus og sextán sýrlenskir flóttamenn starfa hjá honum.

Abdul er sannarlega ríkari maður en áður en hins vegar virðist vera svo að ekki hafi allir fjármunirnir skilað sér til hans. Fyrir skemmstu rataði inn á vefinn upptaka af símtali hans við blaðakonuna Carol Malouf en hún hefur aðstoðað Gissur við að koma peningunum til Abdul. Í myndbandinu heyrist Carol meðal annars segja að hún gæti látið skera tunguna úr Sýrlendingnum.

Vegna málsins hefur Gissur svarað fyrir sig á Twitter. Þar segir hann að honum misbjóði upptakan sem rataði á netið. Í kjölfarið birtir hann upplýsingar um afdrif peninganna sem söfnuðust.

Í fyrstu var gerð tilraun til að koma peningunum til Abdul með PayPal en þar sem þjónusta PayPal er bönnuð í Líbanon hafi það ekki gengið. Þeir peningar hafi verið sendir til baka en við það hafi dágóð summa orðið eftir.

„[Carol] hjálpaði Abdul að kaupa veitingastað. Hún lét hann hafa 65.000 dollara í reiðufé. Hún hélt eftir, síðast þegar ég vissi, 18.000 dollurum vegna þess að hún ber ábyrgð á honum í Líbanon. Ef veitingastaðurinn fer á hausinn og honum er stefnt þá lendir það á henni,“ skrifar Gissur á Twitter-sína. 

Gissur hefur skorað á Carol að birta upplýsingar sem sýna hvað varð um peningana. Carol hefur einnig tjáð sig um málið á Twitter. Þar segir hún meðal annars að Abdul hafi tapað 90.000 dollurum og í kjölfarið kennt henni um skuldir sínar. „Þetta er allt vel skráð hjá okkur,“ skrifar hún.

„Við leiðbeindum honum. Hann hlustaði ekki á okkur. Hann tapaði peningunum sínum og nú kennir hann okkur um. Þannig er það. Við eigum þetta allt til á upptöku,“ segir hún. Að auki hefur hún endurtíst skeytum frá mönnum sem benda á að málið sé líklega runnið undan rifjum stuðningsmanna Bashar al-Assad, Sýrlandsforseta. 

Hvað sem þeim skýringum líður er allavega ljóst um milljón íslenskra króna hefur einhverstaðar á leiðinni orðið milliliðum að bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×