Erlent

Eigandi vatnsleikjagarðs í Taívan fangelsaður fyrir vanrækslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Að mestu var um ungt fólk að ræða og einhverjir brenndust á tæpum helmingi líkamans.
Að mestu var um ungt fólk að ræða og einhverjir brenndust á tæpum helmingi líkamans. Vísir/EPA
Eigandi vatnsleikjagarðs í Taívan hefur verið dæmdur í fangelsi vegna vanrækslu. Fimmtán manns létu lífið og rúmlega 500 slösuðust þegar eldur kviknaði í litardufti sem verið var að úða yfir gesti garðsins í fyrra.

Að mestu var um ungt fólk að ræða og einhverjir brenndust á tæpum helmingi líkamans þegar slysið átti sér stað í Formosa vatnsleikjagarðinum fyrir utan Taipei.

Lu Chung-chi var dæmdur til fjögurra ára og tíu mánaða fangelsisvistar en samkvæmt frétt BBC hefur hann möguleika á að áfrýja dóminum.

Myndbönd af slysinu sýna að duftinu var úðað yfir um þúsund gesti garðsins þar sem þau voru að dansa. Þá kviknaði í duftinu og gátu gestirnir hvergi komist undan. Rannsakendur komust að því að eldurinn kom upp þegar duftið, sem gert er úr maís, lenti á mjög heitu ljósi. Eldurinn breiddist mjög hratt út eins og sjá má hér að neðan.

Dómarinn sagði að Lu hefði ekki gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir slysið og séð um að starfsmenn hans sem komu að því að úða duftinu hafi verið nægilega þjálfaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×