4.júlí 2015 er dagurinn sem líf NFL-leikmannsins Jason Pierre-Paul breyttist til frambúðar. Þá sprengdi hann á sér höndina með flugeldum.
„Það var rosalegt að sjá höndina eftir að flugeldurinn sprakk. Þetta var eins og eitthvað sem maður sér í kvikmyndum segir Pierre-Paul, oftast kallaður JPP, í samtali við Sports Illustrated.
Í viðtalinu opnar hann sig í fyrsta skipti um þetta atvik sem breytti lífi hans. Hann sýnir líka myndir úr einkasafni af höndinni og hversu hrikalega illa hún fór.
Er hann kom á sjúkrahús þá tóku við aðgerðir og svo sterk verkjalyf að hann man vart eftir þessum klukkustundum í lífi sínu. Hann lét þó lækninn vita að það kæmi ekki til greina að taka höndina af.
Pierre-Paul missti einn og hálfan fingur í slysinu. Í heildina er hann búinn að fara í tíu aðgerðir vegna meiðslanna.
Þrátt fyrir það náði hann að snúa aftur í NFL-deildina á síðasta tímabili og spila nokkra leiki með risastórar umbúðir um höndina. Það sáu ekki margir fyrir að myndi gerast er höndin nánast hvarf af honum nokkrum mánuðum áður.
Hér í þessari frétt má sjá myndir af höndinni en rétt er að vara viðkvæma við myndunum.
Hrikalegar myndir af hönd JPP
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
