Erlent

Breskur ráðherra viðurkennir ástarsamband við vændiskonu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Að minnsta kosti fjórir fjölmiðlar vissu af málinu, en sögðu ekki frá því. Því hafa vaknað spurningar um hvort málið hafi haft áhrif á störf ráðherrans.
Að minnsta kosti fjórir fjölmiðlar vissu af málinu, en sögðu ekki frá því. Því hafa vaknað spurningar um hvort málið hafi haft áhrif á störf ráðherrans. vísir/epa
John Whittingdale, ráðherra menningarmála í Bretlandi, viðurkenndi í gærkvöldi að hafa átt í ástarsambandi við vændiskonu um nokkurra mánaða skeið. Hann sagðist þó ekki hafa vitað við hvað hún starfaði fyrr en síðar.

Whittingdale sagðist í samtali við BBC Newsnight hafa kynnst konunni á stefnumótasíðu og að samband þeirra hafi varað frá ágúst 2013 til febrúar 2014. Hún hafi aldrei gefið það til kynna að hún starfaði sem vændiskona. Hann hafi svo slitið sambandi þeirra þegar hann hafi fengið fregnir af því að selja ætti sögu þeirra til fjölmiðla.

Á þeim tíma sem Whittingdale átti í sambandi við konuna starfaði hann sem formaður menningar-, fjölmiðla- og íþróttanefndar breska þingsins. Spurningar hafa vaknað um hvort málið hafi haft áhrif á störf hans en Verkamannaflokkurinn hefur meðal annars farið fram á að gripið verði til aðgerða. Whittingdale þvertekur þó fyrir að málið hafi haft áhrif á störf hans.

„Þetta er gömul saga sem var nokkuð vandræðaleg á þeim tíma. Þetta atvikaðist áður en ég tók við núverandi stöðu en hefur aldrei haft áhrif á þær ákvarðanir sem ég hef tekið sem menningarmálaráðherra,“ sagði Whittingdale í þættinum.

Að minnsta kosti fjórir fjölmiðlar vissu af málinu, en það eru People, the mail on Sunday, Sun og Independent, að því er segir á BBC, en enginn þeirra sagði frá því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×