Skoðun

Algengustu mistökin í krísum

Andrés Jónsson skrifar
Krísustjórnun hefur verið á allra vörum síðustu daga vegna þeirra atburða sem orðið hafa í stjórnmálunum og bað Fréttablaðið mig því um að setja örfá orð á blað um hvað beri helst að hafa í huga þegar krísur verða.

Algeng fyrstu viðbrögð fólks sem lendir í miðpunkti orðsporskrísu er afneitun. Afneitunin getur oft verið í formi aðgerðaleysis. Fólk forðast að horfast í augu við veruleikann og vonar að vandinn hverfi með því að hugsa ekki um hann. Með þessu tapast dýrmætur tími sem hefði mátt nýta til að lágmarka skaðann.

Einnig er mjög algengt að fólk bregðist við með því að skjóta sendiboðann. Þá eru fjölmiðlar eða aðrir málsaðilar sagðir stjórnast af annarlegum hvötum. Leitað er staðfestingar á þessu viðhorfi hjá skyldmennum og samstarfsmönnum sem eiga gjarnan sjálfir erfitt með að sjá hlutina skýrt.

Þá er yfirleitt nánast ómögulegt fyrir þann sem lendir í krísu að horfa á málin frá annarri hlið en sínum eigin þrönga sjónarhóli. Hann veit að hann á að biðjast velvirðingar en eigin reiði verður honum fjötur um fót. Hálfkveðnar vísur og undanbrögð hafa síðan snúið margri afsökunarbeiðninni upp í andhverfu sína.

Mjög mikilvægt í krísum er að skapa traust með því að grípa strax til aðgerða sem ganga helst lengra en það sem lögfræðingar þínir ráðleggja. Ná þannig stjórn á atburðarásinni og hindra að fram komi sífellt nýir angar sem krefjast nýrra viðbragða.

Ein algengasta réttlætingin fyrir aðgerðaleysi eða gegn því að gangast við ábyrgð er að fólk verði búið að gleyma málinu von bráðar. Þetta er alrangt. Það getur verið að almenningur gleymi smáatriðum máls en orðsporshnekkirinn er samt áfram til staðar. Gott orðspor er inneign sem hægt er að nýta þegar syrtir í álinn. Slæmt orðspor þrengir á móti rými okkar til æðis og athafna.

Margir háttsettir hafa þurft að taka poka sinn vegna mála sem hefði verið hægt að laga með réttum viðbrögðum. Við gleymum þessu fólki kannski, en eins og allir þeir sem staðið hafa í miðjum fjölmiðlastormi geta vitnað um, þá lifir sú minning með þeim eins og ör á sálinni ævilangt.




Skoðun

Sjá meira


×