Íslendingaliðið Aalesund komst í hann krappan í Íslendingaslag á móti nágrannaliðinu Herd í norsku bikarkeppninni í kvöld en Herd spilar þremur deildum neðar.
D-deildarliðið Herd komst í 2-0 og 3-1 í leiknum en Aalesund náði að jafna metin með tveimur mörkum á síðustu þremur mínútum leiksins.
Mustafa Abdellaoue skoraði jöfnunarmarkið fyrir Aalesund á 88. mínútu og fylgdi því síðan eftir með því að skora sigurmarkið í framlengingunni.
Ingólfur Örn Kristjánsson kom Herd í 2-0 á móti Aalesund með tveimur mörkum á fyrstu tólf mínútum leiksins en þessi draumabyrjun dugði ekki Herd-liðinu.
Ingólfur Örn er 26 ára gamall og er frá Grundarfirði. Hann spilaði með Völsungi á Húsavík áður en hann fót úr til Noregs.
Það er spurning hvort frammistaða hans í kvöld veki athygli stærri liða í Noregi en hann hefur skorað níu mörk í átta leikjum með Herd í öllum keppnum á þessu tímabili.
Aron Elís Þrándarson, Daníel Leó Grétarsson og Adam Örn Arnarson léku allan leikinn með liði Aalesund. Daníel Leó og Adam Örn í vörninni en Aron Elís í framlínunni.
