Erlent

Juncker kynnir loforðalistann sinn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jean-Claude Juncker flutti árlega stefnuræðu sína á þingi Evrópusambandsins í gær. Á morgun hittir hann leiðtoga aðildarríkjanna á fundi í Bratislava.
Jean-Claude Juncker flutti árlega stefnuræðu sína á þingi Evrópusambandsins í gær. Á morgun hittir hann leiðtoga aðildarríkjanna á fundi í Bratislava. vísir/epa
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flutti hina árlegu stefnuræðu sína í þingsal Evrópusambandsins í Strassborg í gær.

Þar fór hann yfir þær breytingar, sem hann telur helst þurfa að gera á starfsemi Evrópusambandsins á næstunni. Ræðan var að meginuppistöðu langur listi yfir loforð og hugmyndir um breytingar sem gera þurfi í ljósi þeirra erfiðleika sem sambandið stendur nú frammi fyrir.

Hann hóf mál sitt með því að segja að ástandið væri langt frá því gott. Satt að segja myndi hann ekki eftir því að aðildarríkin hafi áður átt jafn erfitt með að starfa saman.

„Aldrei áður hef ég heyrt svo marga leiðtoga tala aðeins um innanríkisvandamál sín, en minnast aðeins á Evrópusambandið í framhjáhlaupi, eða jafnvel alls ekki,“ sagði hann. „Aldrei hef ég séð stjórnir aðildarríkjanna jafn veiklaðar af völdum lýðskrumsafla og lamaðar vegna hættunnar á ósigri í næstu kosningum.“

Hann sagði Evrópusambandið standa frammi fyrir mörgum erfiðum verkefnum, og nefndi þar mikið atvinnuleysi, félagslegt ójafnræði, og gífurlega skuldabyrði. Einnig verði hægara sagt en gert að aðlaga flóttafólk samfélaginu, auk þess sem ýmsar hættur steðji að bæði heima fyrir og utan Evrópu.

Nú þurfi Evrópusambandið að taka sig saman í andlitinu, og þá með því að að leiðtogar þess taki til hendinni: „Er þetta ekki rétti tíminn til að bretta upp ermarnar og tvöfalda eða þrefalda viðleitni okkar til verka?“

Meðal annars segir Juncker mikilvægt að hrinda sem fyrst í framkvæmd hugmyndum um sameiginlegan herafla Evrópusambandsins. Byrjað verði á að koma upp sameiginlegum höfuðstöðvum til að samhæfa hernaðaraðgerðir aðildarríkjanna.

Hann tók þó fram að Evrópusambandið væri ekki sambandsríki Evrópu: „Evrópusambandið okkar er miklu flóknara en svo. Það væru mistök að líta fram hjá þessum flókna veruleika þannig að við fyndum ekki réttu lausnirnar.“

Evrópusambandið sé einungis starfhæft ef allar stofnanir þess og aðildarríkin stefni í sömu átt.

„Evrópubúar vilja áþreifanlegar lausnir á þeim vandamálum sem við er að etja,“ sagði hann. „Þeir vilja meira en loforð, ályktanir og niðurstöður leiðtogafunda. Þeir hafa heyrt þær og séð of oft.“

Juncker varaði fólk þó við því að búast við of miklu af forystu Evrópusambandsins: „Við eigum að átta okkur á því að við getum ekki leyst öll okkar vandamál með einni ræðunni enn. Eða með einum leiðtogafundi til viðbótar.“

Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi breska UKIP-flokksins, var í salnum og hristi bara hausinn: „Þið hafið ekkert lært af úrsögn Bretlands.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×