Enski boltinn

Raggi Sig í röngu landi fyrir miðvarðaleit Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Sigurðsson fór á kostum á EM og er eftirsóttur.
Ragnar Sigurðsson fór á kostum á EM og er eftirsóttur. vísir/epa
Enska úrvalsdeildarliðið Liverpool þarf sárlega á miðverði að halda áður en nýtt tímabil hefst eftir tæpan mánuð og eru Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, og aðstoðarmenn hans farnir á miðvarðaveiðar.

Ragnar Sigurðsson, miðvörð íslenska landsliðsins í fótbolta, dreymir um að komast í ensku úrvalsdeildina og helst til Liverpool sem er hans uppáhalds lið, en Árbæingurinn var orðaður við enska stórliðið á meðan Evrópumótinu stóð.

Enska blaðið Guardian hélt því fram að Liverpool og fleiri ensk lið væru búin að setja sig í samband við annað hvort umboðsmann leikmannsins eða rússneska liðið Krasnodar sem Ragnar spilar með. Sjálfur sagði miðvörðurinn í Frakklandi að ekkert væri til í sögusögnunum með Liverpool.

Ragnar virðist ekki á radarnum hjá Liverpool því samkvæmt heimildum fótboltavefsins Goal.com ætlar Klopp að leita að nýjum miðverði á markaði sem hann þekkir; þýsku 1. deildinni.

Liverpool er búið að losa sig við Kolo Touré og þá verða hvorki Mamadou Sakho né Joe Gomez klárir við upphaf leiktíðar vegna meiðsla. Klopp er sagður mikill aðdáandi hins unga Gomez og ætlar honum stórt hlutverk á næstu misserum.

Klopp er nú þegar búinn að fá einn varnarmann úr þýsku 1. deildinni til sín en Joel Matip kom frá Schalke og mun væntanlega standa vaktina í hjarta varnarinnar ásamt Króatanum Dejan Lovren þegar Liverpool mætir Arsenal í fyrsta leik liðsins í úrvalsdeildinni 14. ágúst. Næsti miðvörður er sagður koma líka frá Þýskalandi.

Ragnar er væntanlega með mörg járn í eldinum eftir frábæra frammistöðu á Evrópumótinu þar sem hann var valinn í lið mótsins hjá The Guardian. Hann hefur spilað með Krasnodar síðan 2014 en var þar áður á mála hjá FCK í Kaupmannahöfn og hefur mikla reynslu af Meistaradeildinni sem og Evrópudeildinni auk þess sem hann er fastamaður í íslenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×