Erlent

Svíar koma á aldurslágmarki fyrir notendur samfélagsmiðla

Atli Ísleifsson skrifar
Þessi mun þurfa að ræða við foreldra sína áður en hún opnar Facebook-reikning.
Þessi mun þurfa að ræða við foreldra sína áður en hún opnar Facebook-reikning. Vísir/Getty
Sænska ríkisstjórnin hyggst setja aldurslágmark fyrir notendur samfélagsmiðla í lög. Börn, allt að sextán ára og yngri, munu þannig þurfa heimild frá foreldrum eða forráðamönnum til að nota miðla á borð við Facebook, Snapchat og Instagram.

Per Bolund, ráðherra neytendamála, segir í samtali við SVT að ákvæði um aldurslágmark verði í sænskum lögum þegar Svíar innleiða nýja tilskipum ESB um vernd persónuupplýsinga.

Bolund segir að tilskipun ESB muni veita ríkisstjórninni heimild til að setja aldurslágmark einhvers staðar á bilinu þrettán til sextán ára. Öll börn yngri en það sem lágmarkið mun segja til um munu þurfa leyfi frá foreldrum eða forráðamönnum.

Innleiða á tilskipunina í sænsk lög innan tveggja ára.

Nýir notendur Facebook, Instagram og Snapchat verða að vera orðnir þrettán ára samkvæmt samningi fyrirtækjanna og notandans. Með nýju lögunum verður þetta fest í lög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×