Skoðun

Borgarbyggð: Framtíðarsýn í menningarmálum

Guðrún Jónsdóttir skrifar
Flestir eru sammála um að gildi menningar og fjölbreytt framboð hennar sé mikilvægur hluti góðra búsetuskilyrða. Sveitarfélög geta þar gegnt lykilhlutverki, ekki síst með mótun sterkrar framtíðarsýnar.

Borgarbyggð setti sér vandaða menningarstefnu árið 2007 og hefur hún verið endurskoðuð árlega síðan. Hún er mikilvægt leiðarljós fyrir stofnanir sveitarfélagsins, ekki síst safnastarf. Reynsla sveitarfélagsins af starfsemi Safnahúss Borgarfjarðar í Borgarnesi undanfarin ár sýnir eftirfylgni menningarstefnu sem skilar sér í frjóu safnastarfi. Safnahúsið samanstendur af fimm mismunandi söfnum, hverju með sitt hlutverk, og er bókasafn þar með talið. Hin fjögur eru skjalasafn, byggðasafn, listasafn og náttúrugripasafn. Sum þeirra eru með þeim elstu í landinu. Starfssvæði þeirra er víðfeðmt, þau þjóna stórum hluta Vesturlands með þjónustusamningum við nágrannasveitarfélög.

Síðan menningarstefna Borgarbyggðar var samþykkt taka verkefni safnanna mið af þeirri megináherslu hennar að miðla þekkingu með lifandi safnastarfi. Hvatning til listsköpunar í héraði er einnig sérstaklega tilgreind og hefur það ákvæði sett mikinn svip á starfsemi safnanna.

Hér skulu til fróðleiks nefnd nokkur dæmi um verkefni nýhafins starfsárs sem endurspegla áherslur menningarstefnu. Árið verður helgað listrænni ljósmyndun í héraði og er megin vettvangurinn Hallsteinssalur sem svo er nefndur til heiðurs miklum listvini, Hallsteini Sveinssyni. Meðal verkefna er sýning á myndum eftir Ómar Örn Ragnarsson í Borgarnesi, en hún tekur við af sýningu Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri sem hefur prýtt salinn frá því í nóvember sl. Sýningu Ómars lýkur í lok febrúar og þá verður pop-up sýning og listasmiðja Michelle Bird í Borgarnesi á dagskrá í rúman mánuð.

Stærsta verkefni ársins er svo sýning á ljósmyndum Sigurjóns Einarssonar áhugaljósmyndara á Hvanneyri. Hann fylgir nokkrum refaskyttum héraðsins eftir í vetrarveiði og sýnir ljósmyndir af störfum þeirra og umhverfi í Hallsteinssal frá apríl og fram í nóvember. Árinu lýkur svo með ljósmyndasýningu Jóns R. Hilmarssonar, skólastjóra Heiðarskóla í Leirársveit, og þema hennar er ljós og náttúra Vesturlands.

Samhliða ofangreindu verða grunnsýningar Safnahúss opnar. Þær eru hannaðar á grundvelli menningarstefnu og heita Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Ýmis önnur áhugaverð verkefni verða á dagskrá. Ber þar einna hæst samstarf Safnahúss og Tónlistarskóla Borgarfjarðar um listræna sköpun ungs fólks. Verður uppskeruhátíð í formi tónleika í vor, þar sem nemendur skólans flytja eigin verk sem þeir hafa samið við ljóð Snorra Hjartarsonar. Ýmislegt fleira mætti nefna sem sýnir að Safnahús er öflugur þátttakandi í menningarlífi héraðsins og er sannkölluð menningarmiðstöð (í héraði).

Það er erfitt að reikna út verðgildi menningar þótt flestir séu sammála um að hún auðgi samfélagið. Hér hefur verið bent á að lítil skref geta skilað góðum árangri ef þau eru tekin á löngum tíma og öll í sömu átt. Dæmi Borgarbyggðar sýnir að ef sveitarfélög móta stefnu geta stofnanir framfylgt henni í formi raunhæfra verkefna. Þannig skilar stefnumótun árangri í stað þess að lenda í skúffunni frægu þar sem ryk og myrkur ráða ríkjum.




Skoðun

Sjá meira


×