Skoðun

Forvörnin í góðum samskiptum gegn einelti

Sara Dögg skrifar
Um þessar mundir opna samtökin Erindi samtök um samskipti og skólamál samskiptasetur. Samtökin hafa unnið ötullega að fræðslu um einelti þar sem ung stúlka hefur heimsótt skóla og sagt sögu sína en hún var sjálf lögð í einelti. Faðir þessarar stúlku hefur síðan rætt við foreldra um leiðir til bættra samskipta við börn og farið yfir ýmsar leiðir sem virka sem forvörn og gerir foreldra meðvitaða um þær hættur sem leynast í samfélaginu og ekki síst í netheimum þar sem samskipti barna og ungmenna eru orðin margvísleg og flókin.

Fá allir að vera með?

Mestu máli skiptir að við sem fullorðin erum, hvaða hlutverki sem við gegnum, stöndum með forvörninni sem felur í sér betri samskipti. Erindi hvetur fólk til að horfa í samskiptin sín og fara yfir þær venjur sem við erum að temja okkur. Beitum við hreinskiptni í samskiptum okkar við annað fólk? Tölum við af virðingu við annað fólk? Virðum við skoðanir hvers annars? Viðurkennum við hvert annað og gefum við öllum tækifæri til að tilheyra þeim hópi sem við tilheyrum hverju sinni.

Fá allir að vera með? er mögulega stóra spurningin og sú mikilvægasta. Já mögulega er líðan hvers einstaklings það allra mikilvægasta í stóra samhenginu og þá skiptir miklu máli að temja sér góð og falleg samskipti.

Ábyrgðin er okkar

Það er ekkert eins sárt og að heyra börn og ungmenni segja frá því að þau fái ítrekað ekki að vera með í því samfélagi sem þau tilheyra eins og skólasamfélagi þar sem þeim ber að eyða stórum parti af degi hverjum í mörg ár jafnvel á sama stað með sama fólkinu. Þessi reynsla barna og ungmenna er ekki liðin tíð, slíkt er að eiga sér stað á hverjum einasta degi og það er gríðarlega alvarlegt. Það sem er enn alvarlegra er að líðan barna er á ábyrgð fullorðinna. Það er á ábyrgð fullorðinna að leiðbeina og upplýsa börn um góð samskipti og hvers vegna okkur ber að tileinka okkur samskipti sem byggja á virðingu í garð hvers annars. Okkur er ekki að takast nógu vel til – því miður.

Góð samskipti eru góð forvörn

Börn þurfa á leiðbeiningu að halda í samskiptum eins og öllu öðru sem þau fást við í lífinu.

Samskipti þar sem börnum er kennt að eiga samskipti af virðingu við hvert annað. Samskipti þar sem foreldrar verða meðvitaðir um sín eigin samskipti við börnin sín og aðra hvort heldur sem eru börn eða fullorðnir. Skilaboðin sem við sem fullorðin sendum út til barna og ungmenna hafa mikil áhrif. Að grípa í taumana þegar við verðum vör við samskipti sem eru að fara út af sporinu - skiptir máli. Að börn verði vör við það að þeim sé leiðbeint í samskiptum hefur áhrif. Þar er ekki síður skólakerfið lykillinn að farsælum samskiptum barna. Og þar er verk að vinna og hægt að hafa gríðarlega mikil áhrif.

Líðan hvers einasta barns skiptir máli

Skólasamfélag sem sameinast um heiðarleg samskipti sem byggja á virðingu nær árangri í bættum samskiptum barna. Að setja skýran ramma um þau samskipti sem börn og fullorðnir ætla að temja sér hefur áhrif. Að fylgja slíkum ramma eftir hefur áhrif. Samskipti barna koma öllu starfsfólki skólasamfélagsins við. Það erum við fullorðna fólkið sem berum ábyrgð á að börnum gangi vel hvort heldur sem er námslega eða félagslega og við verðum að fara að taka á þessum þætti af meiri ábyrgð.

Forvörn í samskiptum er gríðarlega mikilvæg til þess að byggja upp gleði og vellíðan barna. Hvert einasta barn sem upplifir það að vera skilið eftir, að fá ekki að vera með í leiknum á að taka alvarlega. Skólasamfélagið hefur ótal tól og tæki til að stýra málum í farsælan farveg fyrir börn. Við þurfum samtakamátt og meðvitund um að hvert smámál skiptir máli því hvert einasta barn skiptir máli – að barni líði ekki vel í sínu nánasta umhverfi er grafalvarlegt og við því ber að bregðast af ábyrgð. Vellíðan er lykillinn að farsæld allra - alltaf.








Skoðun

Sjá meira


×