Erlent

Forsætisráðherra Úkraínu segir af sér

Birgir Olgeirsson skrifar
Arseniy Yatsenyuk
Arseniy Yatsenyuk
Forsætisráðherra Úkraínu, Arseniy Yatsenyuk, hefur tilkynnt að hann muni segja af sér í vikunni. Hann hefur verið í embætti forsætisráðherra frá því fyrrverandi forseta landsins, Viktor Yanukovych, var komið frá völdum í febrúar árið 2014.

Yatsenyuk greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni en þar segist hann ætla að tilkynna þinginu um ákvörðun sína á þriðjudag.

Forseti Úkraínu, Petro Poroshenko, bað Yatsenyuk um að hætta sem forsætisráðherra síðastliðinn föstudag, en forsetinn sagði forsætisráðherrann hafa misst traust sitt.

Stjórn Yatsenyuk hefur verið sökuð um aðgerðaleysi og spillingu, að því er fram kemur á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur hótað ráðamönnum Úkraínu að veita ekki fjárhagsaðstoð ef þeir ráðast ekki í umbætur á efnahag þjóðarinnar.

BBC segir forseta úkraínska þingsins, Volodymyr Groysman, hafa verið útnefndan af flokki Poroshenko sem eftirmann Yatsenyuk. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×