Alex Oxlade-Chamberlain, leikmaður Arsenal og enska landsliðsins í fótbolta, verður frá næstu tvo mánuðina vegna hnémeiðsla.
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði frá því á blaðamannafundi fyrir leik helgarinnar að Oxlade-Chamberlain sé að glíma við hnémeiðsli og að hann geti ekki spilað næstu sex til átta vikurnar.
„Hann á enga möguleika á því að ná Evrópumótinu. Hann kemur ekki til baka fyrr en í byrjun júlí," sagði Arsene Wenger á blaðamannafundinum samkvæmt BBC. „Þetta er mjög leiðinlegt því þú vilt sjá 22 ára strák spila á Evrópumótinu," sagði Wenger.
Hinn 22 ára gamli Oxlade-Chamberlain hefur ekki spilað með Arsenal síðan að hann meiddist í Meistaradeildarleik á móti Barcelona i febrúar.
Oxlade-Chamberlain missir því ekki aðeins af restinni af ensku úrvalsdeildinni heldur einnig að möguleikanum á því að spila með enska landsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar.
Oxlade-Chamberlain var annars rólegur á tímabilinu og bara með 2 mörk og 2 stoðsendingar í 33 leikjum í öllum keppnum.
Oxlade-Chamberlain hefur skorað 5 mörk í 24 landsleikjum en flottasta tölfræði hans með enska landsliðinu er að liðið hefur aldrei tapað þegar hann hefur spilað.
Alex Oxlade-Chamberlain er ekki sá eini hjá Arsenal sem hefur lokið keppni á þessu tímabili því þýski miðvörðurinn Per Mertesacker mun ekki spila fleiri leiki.
Santi Cazorla, sem hefur ekki spilað síðan í nóvember, ætti hinsvegar að geta tekið þátt í lokaleikjum Arsenal-liðsins.
