Innlent

Árásarmannsins í Kópavogi enn leitað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. vísir/gva
Lögreglan leitar nú manns sem stakk konu í handlegginn í húsakynnum Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins í Kópavogi í morgun. Einn var handtekinn í tengslum við málið í dag en sá hefur verið látinn laus.

Engar öryggismyndavélar voru á ganginum þar sem árásin var gerð og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu áttu maðurinn og konan engin munnleg samskipti.

Sá sem handtekinn var í dag er karlmaður á fertugsaldri en eftir yfirheyrslur var ljóst að hann tengdist málinu ekki. Árásarmannsins er því, sem fyrr segir, enn leitað.

Konuna sakaði ekki alvarlega en hún var flutt á slysadeild til aðhlynningar. Mikill viðbúnaður var við Greiningarstöðina í morgun eftir árásina og var sérsveit lögreglu kölluð út.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins tryggir börnum og unglingum með alvarlegar þroskaraskanir og fatlanir greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að auka möguleika þeirra til sjálfstæðis á fullorðinsárum, að því er segir á vefsíðu þeirra.


Tengdar fréttir

Hnífstunga í Kópavogi

Lögreglan rannsakar nú hnífstunguárás sem átti sér stað á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins við Digranesveg í Kópavogi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×