Innlent

Sluppu naumlega úr brennandi íbúð

Slökkviliðsmenn að störfum. Myndin er úr safni.
Slökkviliðsmenn að störfum. Myndin er úr safni. Vísir/Ernir
Móðir og dóttir sluppu naumlega út úr brennandi risíbúð í sambýlishúsi við Seljaveg í Reykjavík um klukkan hálf fjögur í nótt. Eldurinn virðist hafa magnast hratt og voru rúður farnar að springa út þegar slökkviliðið kom á vettvang, en þá hafði fólk úr öðrum íbúðum hússins forðað sér út.

Mæðgurnar voru fluttar á slysadeild til aðhlynningar en þær munu ekki hafa orðið fyrir reykeitrun. Risið er einangrað með torfi og því mikill eldsmatur í einangruninni og tók talsverðan tíma að slökkva eldinn og þurfti víða að rífa frá glæðum.

Að sögn slökkviliðsins er allt innanstokks gjörónýtt. Íbúar í öðrum íbúðum fengu að snúa til síns heima að slökkvistarfi loknu. Grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað út frá kertaskreytingu, en lögregla rannsakar það nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×