Innlent

Íslenska ríkið þarf að greiða Guðjóni Þórðarsyni bætur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands
Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands Vísir/Anton
Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn föstudag dæmt til að greiða Guðjóni Þórðarsyni, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, tæplega 121 þúsund krónur í skaðabætur. Að auki þarf ríkið að borga 900 þúsund krónur í málskostnað. Guðjón hafði gert kröfu um milljón króna skaðabætur og hálfa milljón í miskabætur.

Forsaga málsins er nokkur. Sumarið 2013 stefndi Guðjón knattspyrnudeild Grindavíkur til greiðslu vangoldinna launa og var fallist á kröfur hans að hluta. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest í Hæstarétti. Í millitíðinni var rekið dómsmál milli Guðjóns og fyrrverandi eiginkonu hans í tengslum við skilnað þeirra. Þar var Guðjón dæmdur til greiðslu ákveðinnar upphæðar en niðurstöðunni var áfrýjað til Hæstaréttar.

Fyrrverandi eiginkona fór fram á að sú upphæð yrði löggeymd og var fallist á það. Í Hæstarétti var niðurstaða héraðsdóms ómerkt og málinu vísað heim í hérað. Nær samstundis var farið fram á kyrrsetningu umræddra eigna Guðjóns. Sú kyrrsetning féll síðar úr gildi en það dróst í þrjá mánuði hjá sýslumanni að endurgreiða Guðjóni fjárhæðina.

Héraðsdómari féllst ekki á að kyrrsetningin hefði verið ólögmæt en taldi að þriggja mánaða dráttur á endurgreiðslunni til Guðjóns hefði falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi sýslumannsembættisins sem ríkið bæri ábyrgð á.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðjóns, sagði í samtali við Fréttablaðið að um prinsippmál hefði verið að ræða. Umbjóðandi hans væri ánægður með niðurstöðuna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×