Innlent

RÚV heyrist ekki á Héraði

Benedikt Bóas skrifar
Ríkisútvarpið heyrist illa á Austurlandi og hefur bæjarráð Fljótsdalshéraðs farið fram á skýringar.
Ríkisútvarpið heyrist illa á Austurlandi og hefur bæjarráð Fljótsdalshéraðs farið fram á skýringar. Vísir/GVA
Útvarpssendingar RÚV á Fljótsdalshéraði eru svo slæmar að íbúar þar hafa kvartað og bent bæjarráði á að stöðin sé í sífellu að detta út. Málið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í vikunni þar sem fram komu fyrirspurnir, kvartanir og ábendingar frá íbúum um endurteknar truflanir á FM-útsendingum RÚV í sveitarfélaginu.

Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs, segir að útsending RÚV detti út í tíma og ótíma. „Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að segja að RÚV náist ekki hérna en það hafa verið miklar truflanir á tímabili. Við höfum óskað eftir skýringum frá RÚV sem við viljum gjarnan fá svör við því þetta er auðvitað ekki ásættanlegt.“

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum að óska eftir upplýsingum frá RÚV um hvernig staðið verður að úrbótum á sambandinu. „Auðvitað viljum við að þetta sé í lagi. Mér persónulega er alveg sama um skýringuna en ég vil að þetta sé í lagi. Þótt truflanir séu á útsendingu Bylgjunnar þá eru aðrar kröfur gerðar til RÚV. Það er útvarp allra landsmanna og við hljótum, sem íbúar þessa lands, að gera kröfur um að það heyrist.“ Hann bendir á að hann hafi ekki heyrt af sama vandamáli með Bylgjuna. „Ég hef ekki heyrt það en Bylgjan er öðruvísi uppbyggð og við eigum ekki sömu heimtingu þar á bæ.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×