Enski boltinn

Allardyce: Terry verður ekki í neinum vandræðum með finna sér nýtt lið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Terry gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið gegn Sunderland.
Terry gengur af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið gegn Sunderland. vísir/getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Sunderland, segir að John Terry muni hafa úr mörgum tilboðum að velja fari svo að hann yfirgefi Chelsea eftir tímabilið.

Terry hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir Chelsea en hann fékk að líta rauða spjaldið í 3-2 tapi Lundúnaliðsins fyrir Sunderland á laugardaginn og er á leið í tveggja leikja bann.

Óvíst er hver næsti áfangastaður Terry verður en Allardyce segir að hann muni ekki eiga í neinum vandræðum með að finna sér lið í ensku úrvalsdeildinni, kjósi hann að spila þar áfram.

„Þetta var ekki síðasti leikur hans í úrvalsdeildinni því önnur lið munu reyna að fá hann, að því gefnu að hann vilji spila áfram í deildinni,“ sagði Allardyce sem er kominn langleiðina með að bjarga Sunderland frá falli.

„Hann gæti líka hugsað eins og David Beckham, að hann vilji ekki spila fyrir neitt annað lið í úrvalsdeildinni og farið erlendis. Lið í Bandaríkjunum og Kína vilja eflaust fá leikmann eins og John Terry,“ bætti Stóri Sam við.

Terry hefur leikið með Chelsea allan sinn feril, fyrir utan stutta dvöl á láni hjá Nottingham Forest, og á að baki 703 leiki fyrir Lundúnaliðið.

Stóri Sam og lærisveinar hans unnu stóran sigur á Chelsea um helgina.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×