Enski boltinn

Chelsea upp í 4. sætið eftir fjórða sigurinn í röð | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chelsea lyfti sér upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 0-2 sigri á Southampton á St. Mary's Stadium í dag.

Þetta var fjórði sigur Chelsea í röð í ensku úrvalsdeildinni. Eftir töpin fyrir Liverpool og Arsenal breytti Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, um leikkerfi, fór að spila 3-4-3 og það hefur svínvirkað.

Í þessum fjórum sigurleikjum hefur Chelsea skorað 11 mörk og ekki fengið eitt einasta á sig.

Leikurinn í dag var aðeins sex mínútna gamall þegar Eden Hazard kom Chelsea yfir með góðu vinstri fótar skoti sem fór milli fóta Frasers Forster í marki Southampton.

Staðan var 0-1 í hálfleik og fram á 55. mínútu þegar Diego Costa skoraði með frábæru skoti fyrir utan teig og jók forystu gestanna. Þetta var áttunda mark Costa á tímabilinu en hann er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir mark Costa var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Lærisveinar Contes sigldu sigrinum í örugga höfn og fögnuðu stigunum þremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×