Enski boltinn

Lukaku hrellti Hamranna | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Romelu Lukaku skoraði fyrra mark Everton og lagði upp það síðara þegar liðið vann 2-0 sigur á West Ham á Goodison Park í dag.

Þetta var fyrsti sigur Everton í fimm leikjum en liðið er áfram í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, nú með 18 stig eftir 10 umferðir.

West Ham var kippt snögglega niður á jörðina eftir sigurinn góða á Chelsea í deildarbikarnum á miðvikudaginn. Hamrarnir eru í 16. sæti deildarinnar með 10 stig, þremur stigum frá fallsæti.

Staðan var markalaus í hálfleik en eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik kom Lukaku Everton yfir með sínu sjöunda marki í úrvalsdeildinni. Hann hefur nú skorað jafn mörg mörk og Diego Costa hjá Chelsea og Sergio Agüero hjá Manchester City.

Seamus Coleman átti skot sem Adrián varði til hliðar, Yannick Bolasie var vel vakandi og tæklaði boltann á Lukaku sem ýtti boltanum yfir línuna.

Leikmenn West Ham reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en án árangurs. Barkley gerði svo út um leikinn þegar hann skoraði eftir skyndisókn og sendingu Lukakus á 76. mínútu.

Lukaku og Tom Cleverley fengu tækifæri til að bæta við forystuna undir lokin en fleiri urðu mörkin ekki. Lokatölur 2-0, Everton í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×