Enski boltinn

Jamie Redknapp kallaði Victor Moses ungan og efnilegan Englending

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Jamie Redknapp, sparkspekingi á Sky Sports, varð á í messunni fyrir leik Southampton og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Umræðan snerist um Victor Moses, leikmann Chelsea, sem hefur öðlast nýtt líf hjá félaginu undir stjórn Antonios Conte.

Redknapp sagði að þarna væri á ferðinni ungur og hæfileikaríkur, enskur leikmaður.

Staðreyndin er raunar sú að Moses er 25 ára nígerískur landsliðsmaður. Gárungarnir á Twitter voru fljótir að kveikja á þessu og skutu fast á Redknapp.

Honum til varnar lék Moses um 30 leiki fyrir yngri landslið Englands á sínum tíma. Moses fæddist í Lagos, stærstu borg Nígeríu, en kom 11 ára gamall til Englands eftir að foreldrar hans voru myrtir.

Moses ákvað fyrir nokkrum árum að spila fyrir Nígeríu og lék sinn fyrsta landsleik 2012. Moses hefur alls leikið 24 landsleiki fyrir Nígeríu og skorað sjö mörk.

Moses hefur leikið níu af 10 leikjum Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í vetur og skorað tvö mörk.

Chelsea vann 0-2 sigur á Southampton fyrr í dag og er komið upp í 4. sæti deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×