Enski boltinn

Mourinho: Besta frammistaða tímabilsins hjá mínum mönnum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mourinho gekk súr af velli með aðeins eitt stig í farteskinu.
Mourinho gekk súr af velli með aðeins eitt stig í farteskinu. Vísir/getty
„Þetta var besta frammistaða okkar á tímabilinu. Við fengum færin til að skora 3-4 mörk í fyrri hálfleik og alls sex mörk í leiknum en nýttum ekki færin,“ sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, svekktur að leikslokum eftir 1-1 jafntefli gegn Stoke í hádegisleiknum í enska boltanum.

Heimamenn fengu fjöldan allra færa til að gera út um leikinn en Joe Allen náði að jafna metin fyrir Stoke skömmu fyrir leikslok.

„Spilamennskan í dag var mun betri en gegn Leicester og í raun lang besta frammistaðan okkar í langan tíma. Við erum með lið sem vill skora mörk og stýra leikjum og við fengum hátt í átta færi til að klára leikinn.“

Sjá einnig:Stoke krækti í stig á Old Trafford

Mourinho hrósaði Lee Grant, markverði Stoke í dag, í hástert eftir leikinn.

„Strax á fyrstu mínútu bjargar hann þeim með frábærri markvörslu þegar hann varði frá Zlatan. Svo ver hann frábærlega allan leikinn og aftur frá Zlatan á lokasekúndunum. Það er hægt að segja ýmislegt um jafnteflið en að mínu mati bjargaði hann stigi fyrir Stoke,“ sagði Mourinho og hélt áfram:

„Stoke barðist af krafti eins og þeir gera í öllum leikjum. Þeir komu hingað til að sækja eitt stig og voru heppnir að ná því í dag. Heppni er hluti af fótboltanum og þeir eru ekki sökudólgarnir fyrir því að við tökum ekki þrjú stig í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×