Innlent

Yfir 600 í mikilli þörf fyrir húsnæði

Benedikt bóas hinriksson skrifar
Af þeim sem voru á biðlista eftir félagslegu húsnæði voru 74 prósent í brýnni þörf fyrir húsnæði.
Af þeim sem voru á biðlista eftir félagslegu húsnæði voru 74 prósent í brýnni þörf fyrir húsnæði. vísir/vilhelm
Í lok september voru 826 umsækjendur á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík, þar af voru 612 í mikilli þörf. Þetta kemur fram í svari velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

Fjöldi barna umsækjenda eru 331 og miðar velferðarsviðið við börn yngri en 18 ára sem lúta forsjá umsækjenda og/eða dvelja hjá þeim í reglubundinni umgengni. Ungt fólk er í mestri þörf fyrir húsnæði en 371 á aldrinum 18-39 ára eru sögð í mikilli þörf, 216 á aldrinum 40-66 og 25 eldri en 67.

Langflestir umsækjendur eru einhleypir karlmenn eða 363 slíkir eru sagðir í mikilli þörf á móti 163 einhleypum konum. Einstæðar mæður eru 69 talsins en fjórir einstæðir feður eru í mikilli þörf.

Af þeim 826 sem voru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði fengu 156 almennar húsaleigubætur. Á sama tíma fengu 908 notendur sérstakar húsaleigubætur á almennum markaði. Velferðarsviðið segir í svari sínu að erfitt sé að meta hvort biðlistinn endurspegli þörf sem er til staðar fyrir félagslegu leiguhúsnæði því margir þættir hafa áhrif á eftirspurnina. Fyrst og fremst er það þó framboð á öðru ódýru húsnæði. Af þeim sem voru á biðlista voru 74 prósent í brýnni þörf fyrir húsnæði. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×