Erlent

Hvers vegna réðst herinn til atlögu og hvað klikkaði?

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fólk þusti út á götur eftir að Erdogan ávarpaði þjóð sína í gegnum Facetime.
Fólk þusti út á götur eftir að Erdogan ávarpaði þjóð sína í gegnum Facetime. vísir/getty
Tyrkneski herinn gerði í kvöld tilraun til að ræna völdum í landinu. Hermenn tóku yfir höfuðstöðvar tyrkneskra fjölmiðla Atatürk-flugvöllinn í Istanbúl auk Bospórus-brúarinnar og Fatih Sultan Mehmet brúnna yfir Bospórussundið. Með því vildi herinn tryggja að enginn kæmist til eða frá vestari hluta landsins.

Í austari hlutanum tóku hermenn einnig yfir mikilvæg skotmörk í höfuðborginni Ankara. Þegar yfir lauk fór valdaránið hins vegar út um þúfur. Það skilur eftir sig spurningar á borð við hvers vegna og hví herinn reyndi yfir höfuð að ná völdum.

Í þessari örskýringu á sterum, hugmyndin fengin frá Nútímanum, verður saga Tyrklands og framgangur valdaránstilraunarinnar rakinn í örstuttu og afar einfölduðu máli til að reyna að útskýra hvers vegna atburðir gærkvöldsins áttu sér stað.

Tyrkland, eins og við þekkjum það í dag, var komið á fót í lok heimstyrjaldarinnar fyrri. Mustafa Kemal Atatürk var fyrsti forseti landsins og hefur löngum verið hampað sem stofnanda þess. Atatürk var mikill hugsjónamaður. Hann mælti fyrir byltingakenndum umbótum sem áttu að tryggja það að Tyrkland færðist nær nútímanum og hinum vestræna heimi. 

Sé Tyrkland talið með sem Evrópuland þá er það hið næstfjölmennasta á eftir Þýskalandi (veltur á því hvort Rússland sé talið í Evrópu eður ei). Ríkið er með næstfjölmennasta her allra NATO-ríkja á eftir Bandaríkjunum. 

Meðal þess sem fólst í kenningum Atatürk var að herinn myndi ekki heyra undir forsetann. Þess í stað á herinn að tryggja það hugsjónir stofnandans séu virtar. Í gegnum tíðina, til að mynda árin 1960, 1971 og 1980, auk inngripa hersins árið 1993 og 1997, hefur hernum þótt stjórnendur landsins hafa fjarlægst hugsjónina um of og ákveðið að grípa inn í. Hið sama gerðist nú.

Hvers vegna greip herinn til þessara aðgerða í gær?

Recep Tayyip Erdogan hefur verið leiðandi í tyrkneskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann varð forsætisráðherra á árunum 2003 til 2014 en þá tók hann við embætti forseta. Þá var hann fyrsti lýðræðislega kjörni forsetinn í sögu Tyrklands. Erdogan kemur úr Réttlætis- og uppbyggingarflokknum, AKP, sem er flokkur sem hefur gildi íslam í hávegum. 

Forsetinn var umdeildur áður en hann tók við embætti en eftir að hann settist í stól forseta hefur hann orðið enn umdeildari en áður. Hann hefur viljað auka við völd forsetaembættisins en ekki haft erindi sem erfiði. Fjölmiðlar, sem eru andstæðir stefnu forsetans, hafa verið teknir yfir og blaðamenn sóttir til saka. Þá hefur spurningin um hvort ríkið og trúin séu eitt ítrekað skotið upp kollinum. 

Sjá einnig:Tilraun til valdaráns í Tyrklandi

Sé litið í suðurátt þá hefur geisað borgarastyrjöld í Sýrlandi. Það er ekkert leyndarmál að Erdogan og Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, eru engir vinir. Heimildir herma að tyrkneska stjórnin hafi aðstoðað uppreisnarmenn í Sýrlandi. Það hefur sett Erdogan í örlitla klemmu því á meðan uppreisnarmenn berjast við stjórnarherinn er aðeins Íslamska ríkið til að halda aftur af Kúrdum innan landamæra Sýrlands. Vaxi Kúrdum í Sýrlandi fiskur um hrygg er næsta víst að þeir muni einnig hafa hærra í Tyrklandi og forsetinn má ekki til þess hugsa að Kúrdar slíti sig frá Tyrklandi.

Þetta er meðal þeirra hluta sem urðu til þess að herinn reyndi að koma Erdogan frá völdum í gær.

Fólk þusti út á götur og stöðvaði för skriðdreka og hermanna.vísir/epa
Hvers vegna fór valdaránið úrskeiðis?

Svo stuttu eftir atburði gærkvöldsins er erfitt að benda á nákvæma ástæðu en það er hægt að giska. Stærsta ástæðan fyrir klúðrinu má skrifa á nýja tækni. Í raun var þetta 20. aldar valdarán, framkvæmt eftir leikreglum þess tíma, sem fór fram á 21. öldinni. 

Líkt og áður segir náðu valdaræningjarnir að taka yfir hernaðarlega mikilvæga staði. Markmiðið var að ná þeim, halda þeim og vonast til þess að íbúar landsins samþykktu yfirráð þeirra andmælalaust. Enginn átti að komast inn eða út úr vestari hluta Istanbúl og allir þeir staðir, sem máli skiptu í höfuðborginni Ankara, voru á valdi hersins. 

Sú áætlun fór rækilega út um þúfur. Erdogan forseti, sem var staddur í fríi á Marmaris þegar þessir atburðir áttu sér stað, ávarpaði þjóð sína í gegnum Facetime um níutíu mínútum eftir að fyrstu fregnir af valdaráninu bárust. Þar sagði hann að minnihluti hersins hefði gert tilraun til að ræna völdum auk þess að hann hvatti fólk til að fara út á götur borga landsins og virða ekki útgöngubann hersins. 

Þrátt fyrir að herinn stýrði ríkisfjölmiðlunum þá hafði hann ekkert vald yfir internetinu og samfélagsmiðlunum. Taktíkin hefði mögulega gengið upp á öðrum tímum en árið 2016 var hún einfaldlega úrelt. Öll heimsbyggðin fylgdist með því í beinni útsendingu þegar íbúar landsins tóku forsetann á orðinu og þustu út á götur þar sem þeir mættu hermönnunum. Ljóst er að fjöldi almennra borgara féll þegar hermenn hóf skothríð á þá en margir hermenn féllu einnig fyrir hendi lögreglumanna og þegar þyrlur þeirra voru skotnar niður.

Hvað gerist nú?

Erdogan lenti á Atatürk-flugvellinum tæpum fimm klukkustundum eftir að atburðarásin fór af stað. Þar sagði hann að landráðamennirnir myndu gjalda fyrir það sem þeir hefðu gert. Þá hvatti hann eftirstandandi hermenn, sem tóku þátt í valdaráninu, til þess að leggja niður vopn. „Þetta mun hafa jákvæð áhrif að lokum. Þetta mun hjálpa okkur að hreinsa herinn af þessari pest sem reynt hefur að taka yfir landið,“ sagði Erdogan.

Minnst 42 létust í Ankara en flestir þeirra voru almennir borgarar. Enn er óvitað hve margir fórust í Istanbúl. Að auki er hefur ekki enn komið fram hverjir innan hersins stóðu að baki valdaráninu. Samkvæmt heimildum tyrkneskra fjölmiðla voru aðeins 104 hermenn sem tóku þátt í því að reyna að ná völdum. 

Eflaust munu atburðirnir hafa áhrif á viðskipti Tyrklands við önnur ríki og mögulega á túrisma í landinu. Hvað sem því líður er morgunljóst að Recep Tayyip Erdogan stóð þessa valdaránstilraun af sér. Hvort hann muni ná að notfæra sér hana til að auka á áhrif sín eða hvort þetta þýðir að hann muni horfa meir til vesturs getur tíminn einn leitt í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×