Enski boltinn

„Mourinho er fullkominn fyrir United“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourino er líklega næsti maður á Old Trafford.
José Mourino er líklega næsti maður á Old Trafford. vísir/getty
Suður-Afríkumaðurinn Benni McCarthy, fyrrverandi leikmaður Porto, segir að José Mourinho sé fullkominn fyrir Manchester United, en Portúgalinn er sterklega orðaður við stjórastöðuna á Old Trafford.

Enskir miðlar hafa greint frá því að Mourinho sé nú þegar kominn í samningaviðræður við United og þá á hann að hafa sagt vinum sínum að hann tekur við af Louis van Gaal í sumar.

McCarthy, sem vann Meistaradeildina undir stjórn Mourinho með Porto 2004, segir lykilatriði í þessu að Portúgalinn hefur sannað sig í leikjum á móti Pep Guardiola sem tekur við Manchester City í sumar.

„Mourinho er einn af þessum mönnum sem veit hvernig á að vinna Guardiola,“ segir McCarthy í viðtali við BBC.

„Þegar hann var hjá Real Madrid vann hann Guardiola nokkrum sinnum og hann náði einnig árangri gegn honum þegar Mourinho stýrði Inter.“

„Eins og staðan er núna sé ég engan sem á roð í Guardiola þegar hann er búinn að skipuleggja City-liðið. En Mourinho fengi peningana og leikmennina hjá United til að sigra Guardiola,“ segir McCarthy.

Framherjinn er algjörlega ósammála því að Mourino sé skemmd vara eftir það sem gerðist hjá Chelsea í byrjun leiktíðar sem varð til þess að Portúgalinn var rekinn.

„Stuðningsmennirnir og fjölmiðlamennirnir vita ekki hvað gengur á bakvið tjöldin. Ég er sannfærður um að það sem gerðist hjá Chelsea geri hann ekki að slæmum knattspyrnustjóra,“ segir McCarthy.

„Manchester United er líka með mikið af ungum leikmönnum sem vilja ná langt. Mourinho gæti komið inn og verið fullkominn maður í starfið,“ segir Benni McCarthy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×