Erlent

David Cameron boðar rannsóknarnefnd um skattaskjól og peningaþvætti

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Breska ríkisstjórnin ætlar að setja á laggirnar rannsóknarnefnd til að rannsaka skattasvik og peningaþvætti í kjölfar opinberunar Panama-skjalanna. Nefndin verður leidd af ríkisskattstjóra Bretlands og bresku leyniþjónustunni. Nefndin mun einnig fá liðsauka frá sérfræðingum úr efnahagsbrotadeild lögreglunnar og fjármálaeftirlitinu.

Nefndin mun skila niðurstöðum til fjármálaráðherra og innanríkisráðherra seinna á árinu en fjármálaráðuneyti Bretlands gat ekki sagt hvert endanlegt markmið nefndarinnar væri, í samtali við fréttastofu BBC. Ekki er ljóst hvort nefndin fái að vinna með gögn úr Panama-skjölunum en ríkisskattstjóri Bretlands hefur beðið Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna um aðgang að gögnunum.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið í brennidepli síðustu vikuna eftir að upp kom í Panama-skjölunum að faðir hans hafi átt félagið Blairmore Holdings í skattaskjóli. Cameron hefur nú gert skattaframtal sitt aðgengilegt almenningi á vef bresku ríkisstjórnarinnar. Það hefur George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, einnig gert.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×