Skoðun

Ný stjórnmál

Magnús Orri Schram skrifar
Stjórnmálamenningin skrapaði botninn í síðustu viku en líklega eru betri tímar fram undan. Í fyrsta lagi er krafa almennings um breytingar skýr. Í öðru lagi held ég að ný stjórnarskrá muni hjálpa mikið til að taka íslensk stjórnmál uppá næsta stig. Hún verður táknrænn samfélagssáttmáli um ný vinnubrögð. Í þriðja lagi sýnist mér sífellt fleiri stjórnmálamenn vera að nálgast stjórnmálin með öðrum hætti en áður. Það verður áhugavert að sjá hvernig flokkur jafnaðarmanna bregst við þessum breytingum og hvort hann ætlar hann sér að verða hluti af nýrri stjórnmálamenningu.

Almenningur krefst breytinga

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að almenningur vill nýja gerð af stjórnmálum. Honum ofbýður tvöfeldnin, lítilsvirðing gagnvart siðareglum, blind flokkshollusta, valdafýsnin og skortur á iðrun og yfirbót. Traust er í lágmarki vegna háttalags einstakra manna og meðvirkni félaganna.

Nútímastjórnmálamaður

Stjórnmálamenn eiga að vera auðmjúkir gagnvart ábyrgð sinni og tala af virðingu hver við annan. Starfa fyrir opnum tjöldum. Stjórnmálamaður má viðurkenna mistök. Hann stendur sterkari eftir. Stjórnmál eru ekki kappleikur þar sem allt snýst um að klekkja á andstæðingnum. Fólk er búið að fá nóg af slíku. Stjórnmál í sinni bestu mynd eru samtal og samvinnuverkefni þar sem rökræðan leiðir fram bestu niðurstöðuna. Í stjórnmálum á meirihluti að bera virðingu fyrir minnihluta. Ný stjórnmál eiga að leyfa þér að fagna góðum hugmyndum þótt þær komi frá öðrum. Það sýnir styrk en ekki veikleika. Fólk vill hugrakka stjórnmálamenn sem láta ekki blindast af flokkshollustu og foringjadýrkun.

Samfylkingin

Þar sem ég er í formannskjöri í Samfylkingunni langar mig að lokum að segja þetta: Ég vona að flokkur jafnaðarmanna eigi eftir að vera talsmaður þessara breytinga. Kyndilberi nýrra stjórnmála. Verða hluti af siðvæðingunni og umbótaafl breytinga. Vera heiðarlegur gagnvart fólki og auðmjúkur gagnvart hlutverki sínu. Í fararbroddi samvinnustjórnmála. Það krefst hugrekkis, og endurmats á starfsemi og vinnulagi. En takist verkefnið, geta jafnaðarmenn gegnt veigamiklu hlutverki í nýjum stjórnmálum á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×