Erlent

Juncker vill sameiginlegan her og ókeypis þráðlaust net fyrir alla

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Vísir/AFP
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vill að ESB komi sér upp sínum eigin hernaðarlegu höfuðstöðvum og vinni að því að koma upp sameiginlegum her.

Juncker fór yfir víðan völl í ræðu sinni í Evrópuþinginu í morgun þar sem hann fór yfir stöðu sambandsins (State of the European Union).

Juncker sagði ESB nú vinna að því með Atlantshafsbandalaginu að koma á innra samstarfi sem stangist ekki á við hernaðarsamstarf Evrópuríkja og ríkja Norður-Ameríku innan NATO. Sagði hann það vera skynsamlegt í efnahagslegu tilliti að sameina kraftana og fyrir árslok yrði lagt til að stofnaður yfir samevrópskur varnarsjóður sem muni fjármagna og fjárfesta í þróun á þessu sviði.

„Það mikilvægasta í Evrópu er að halda friðinn. Við eigum í stöðugum átökum, en við berjumst með orðum, ekki í skotgröfunum.“

Juncker sagðist í ræðu sinni jafnframt harma ákvörðun Breta um að segja skilið við Evrópusambandið. Tilurð sambandsins væri þó ekki ógnað.

Hann sagði einnig að farið sé að bera á samstöðu þegar kæmi að málefnum flóttamanna. Þá sagði hann nauðsynlegt að tryggja öryggi flóttabarna.

Juncker sagði sambandið verða að vera með skýrar reglur um hver geti komið til ríkja sambandsins og að nauðsynlegt sé að skrá niður hverjir haldi yfir landamærin, hvenær, hvaðan þeir koma og í hvaða tilgangi.

Í frétt DR er einnig haft eftir Juncker að allir bæir í aðildarríkjunum skuli njóta ókeypis þráðlauss nets fyrir árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×